Frjálsar á Smáþjóðleikunum hefjast á morgun

Smáþjóðleikarnir fara fram í Svartfjallalandi og voru settir í gær, 27. maí og standa yfir til 1. júní. Þeir eru haldnir annað hvert ár, alltaf á oddatöluári frá árinu 1985. Þátttökurétt á mótinu eiga þjóðir í Evrópu með íbúatölu undir einni milljón. Auk Íslands eru það Andorra, Mónakó, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, San Marínó og Svartfjallaland. Keppt verður í nokkrum íþróttagreinum en flestir verða keppendur í frjálsíþróttum eða 222 talsins.

Keppnisdagarnir í frjálsum eru þrír, 29., 30. og 31. maí. Ísland sendir út sterkt lið þar sem stefnan er sett á verðlaunasæti í öllum greinum. Íslensku keppendurnir verða 22 auk fararstjóra, þjálfara og sjúkraþjálfara. Liðið má sjá neðst.

Keppnisfyrirkomulagið á leikunum er með þeim hætti að sú þjóð sem fær flest gullverðlaun vinnur leikana. Sé jafnt í gullverðlaunum milli tveggja þjóða verður farið í silfurverðlaun og svo framvegis. Aðeins er hverri þjóð heimilt að senda tvo keppendur í hverja grein. Íslandi hefur gengið vel síðustu árin og er stefnan sett á áframhaldandi velgengni.

Á smáþjóðleikunum 2017 fór Kýpur með sigur af hólmi með fjórtán gullverðlaun. Ísland kom þar næst á eftir með ellefu. Árið 2015 fóru smáþjóðleikarnir fram á Íslandi. Íslendingar nýttu sér það vel og sigruðu leikana með fimmtán gullverðlaun gegn tíu gullverðlaunum hjá Kýpur.

Í ár má því búast við áframhaldandi baráttu milli Kýpverja og Íslendinga um gullið en einnig verður spennandi að fylgjast með Svartfjallalandi. Þeir verða á heimavelli og munu því senda fjölmennt lið á mótið og gætu því blandað sér í báráttuna um gullið.

Heimasíðu mótsins má finna hér.

Lið Íslands

Karlar
Arnar Pétursson, ÍR – 3000m hindrun, 5000m, 10000m
Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR – Spjótkast
Guðni Valur Guðnason, ÍR – Kringlukast, kúluvarp
Hlynur Andrésson, ÍR – 3000m hindrun, 5000m
Ísak Óli Traustason, UMSS – 110gr, langstökk, boðhlaup
Ívar Kristinn Jasonarson, ÍR – 400m grind, 200m, boðhlaup
Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS – 100m, 200m, boðhlaup
Kormákur Ari Hafliðason, FH – 400m, boðhlaup
Kristinn Torfason, FH – Langstökk, þrístökk

Konur
Andrea Kolbeinsdóttir, ÍR – 5000m, 10000m
Aníta Hinriksdóttir, ÍR – 800m, 1500m
Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðablik – Langstökk, hástökk, boðhlaup 
Elín Edda Sigurðardóttir, ÍR – 5000m, 10000m
Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfoss – 400m grind
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR – 100m, 200m, boðhlaup
Hafdís Sigurðardóttir, UFA – Langstökk, þrístökk, boðhlaup
Irma Gunnarsdóttir, Breiðablik – Þrístökk
Kristín Karlsdóttir, FH – Kringlukast
María Rún Gunnlaugsdóttir, FH – Hástökk, 100m grind
Tiana Ósk Whitworth, ÍR – 100m, 200m, boðhlaup
Þórdís Eva Steinsdóttir, FH – 400m, boðhlaup

Fararstjórar og þjálfarar í ferðinni eru Íris Berg Bryde, Brynjar Gunnarsson, Guðmundur Hólmar Jónsson, Martha Ernsdóttir, Sigurður Arnar Björnsson. Sjúkraþjálfari í ferðinni er Halldór Fannar Júlíusson og kynningarfulltrúi er Kristófer Þorgrímsson.