Friðrik Þór Óskarsson nýr heiðursfélagi FRÍ

Friðrik hefur rutt brautina hér á landi í að koma afrekaskrám og mótaúrslitum í rafrænt form og gert þau aðgengileg á internetinu. Auk þess er hann mikill áhugamaður um íþróttir og frjálsíþróttir sérstaklega og hefur meðal annars sótt nokkra Ólympíuleika í fríum sínum, nú síðast í London. Hann er einnig góður ljósmyndari og á mikið safn ljósmynda þar á meðal nokkrar ómetanlegar myndir úr frjálsíþróttum.
 
Á sínum yngri árum keppti Fiffó bæði fyrir sitt félagslið ÍR og landslið í þrístökki og langstökki og er meðal bestu manna í þessum greinum báðum frá upphafi hér á landi. Hann er einnig meðal stigahæstu keppenda í Bikarkeppni FRÍ fyrir sitt félag í gegnum árin og hefði samanlagður árangur hans dugað því sem næst til að vinna eina keppni.
 
Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Friðriki Þór til hamingju með árin 60 og þakkar honum fyrir ómetanlegt framlag hans til íþróttarinnar. Ennfremur er honum þakkað farsælt og gæfuríkt samstarf á undanförnum árum og áratugum um leið og sú von er látin í ljós að við megum njóta starfskrafta hans um langan aldur.

FRÍ Author