Friðrik Þór hlaut viðurkenningu frá EAA

Friðrik Þór Óskarsson hlaut fyrr á árinu viðurkenningu frá EAA fyrir framlag sitt til frjálsra íþrótta í gegnum árin. Friðrik hannaði og forritaði mótaforritið Þór og hefur um árabil séð alfarið um að skráningu á öllum þeim árangri sem íslenskir keppendur ná á mótum hérlendis og erlendis.

Friðrik er fyrrum afreksmaður í frjálsum íþróttum en þess má geta að hann á 15,29 m (+0,0 m/s) í þrístökki, en það er næstbesti árangur Íslendings frá upphafi. Þeim árangri náði hann á Evrópubikarkeppni landsliða í Luxemborg árið 1979. Þá á hann 6. besta árangurinn í langstökki frá upphafi, 7,41 m (+0,0 m/s) frá árinu 1977.

Það starf sem hann hefur unnið í gegnum árin er svo sannarlega ómetanlegt og er frjálsíþróttahreyfingin gríðarlega heppin af hafa hann í sínum röðum.

Viðurkenningin var afhent á Evrópumeistaramótinu í Belgrade sem fram fór í mars á þessu ári. Friðrik var ekki viðstaddur afhendinguna og tók því staðgengill frá FRÍ við viðurkenningunni. Friðrik fékk síðan loksins verðlaunagripinn í hendurnar nú á dögunum er hann kom við á skrifstofu FRÍ.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Friðriki innilega til hamingju með verðlaunin og þakkar honum fyrir alla hjálpina í gegnum árin!