FRÍ og HR í samstarf í fræðslumálum

Formaður FRÍ, Ásdís Halla Bragadóttir og Þórdís Gísladóttir lektor og sviðsstjóri Íþróttafræðisviðs Háskólans í Reykjavík, undirrituðu síðdegis í gær, samkomulag um samstarf FRÍ og HR í fræðslumálum.
 
Samkvæmt þessu samkomulagi mun HR sjá um framkvæmd á námskeiðum fyrir frjálsíþróttaþjálfara
í landinu. Fram til þessa hefur frjálsíþróttaþjálfurum aðeins staðið til boða A-stigs námskeið hér á landi, auk tilfallandi fyrirlestra með erlendum leiðbeinendum.
 
Þá hafa íslenskir frjálsíþróttaþjálfarar getað af og til sótt námskeið erlendis á vegum FRÍ. HR mun, í samvinnu við FRÍ, nýta sér fræðsluefni frá Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu (IAAF) Coaches Education Certified System (CECS) við kennslu fyrir íþróttakennaranema skólans.
 
CECS er nýtt fræðsluefni sem unnið er af IAAF til fræðslu fyrir þjálfara um allan heim. Það skipist í fimm hluta og er stefnt að því að fyrstu þrjú stigin verði kennd hér á landi, bæði innan HR og að þau standi frjálsíþrótta-
þjálfurum til boða. Tvö efstu stigin verða síðan kennd erlendis á vegum IAAF.
 
Skipulag CECS tekur mið af bæði alþjóðlegum kröfum og skilyrðum Evrópusambandsins. Í stuttu máli er 1. stig ætlað þjálfurum barna og unglinga. Þjálfari með 2. stig sinnir almennri þjálfun í félagi eða deild. Þjálfari á 3. stigi er fær um að taka fyrir sérþjálfun í einstökum greinum. Á 4. stigi er þjálfari orðinn fær um að þjálfa afreksfólk í einstökum greinum. Fimmta stig er ætlað landsþjálfurum, þjálfun íþróttafólks á heimsvísu auk þeim sem
sinna stefnumótun og kennslu.
 
Með þessu samstarfi öðlast frjálsíþróttaþjálfarar á Íslandi í fyrsta sinn aðgang að skipulögðum
námskeiðum sem gefa þeim alþjóðleg réttindi. HR öðlast, með þessu samstarfi, aðgang að góðu kennsluefni í íþróttum sem fellur að markmiðum skólans að efla tengsl hans við atvinnulífið.
 

FRÍ Author