Um helgina fór fram Norðurlandameistaramót í eldri aldursflokkum í Laugardalshöll og voru um 250 keppendur skráðir til leiks. Mótið var bæði Norðurlandameistaramót, þar sem keppendur frá Finnlandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Íslandi keppa um Norðurlandatitil í sínum aldursflokki. Mótið var einnig opið mót fyrir aðrar þjóðir utan Norðurlandanna.
Á mótinu var keppt í tólf mismunandi keppnisgreinum í aldursflokkum frá 35 ára til 99 ára og var þetta í fyrsta sinn sem keppt var í lóðkasti í laugardalshöllinni.
Elsti keppandi mótsins var Finninn Pekka Penttilä og verður hann 99 ára í næsta mánuði. Pekka keppti í 60 metra hlaupi og kom í mark á tímanum 19,32 sek.
Það voru 57 Íslendingar skráðir til leiks og fengu Íslendingar 51 gullverðlaun á mótinu og en það voru Finnar sem unnu til flestra gullverðlauna eða 81 talsins.
Úrslit mótsins má finna hér.
Myndir frá mótinu má finna hér.