Frábærir árangrar á frjálsíþróttamóti RIG

Óvænt úrslit urðu í 60 m hlaupi karla.  Sigurvegarinn,Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS, kom sem þruma úr heiðskýru lofti þegar hann kom í mark á tímanum 6,96 s.  Daniel Gardiner kom í mark á sama tíma og Jóhann Björn en var dæmt 2. sætið.  Þriðji í hlaupinu varð Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA á tímanum 7,03 s.  Kolbeinn Höður hljóp þó í fyrsta skipti undir 7 s í undankeppninni þegar hann kom í mark á 6,98 s.  Ólympíumeistarinn, Mark Lewis-Francis var dæmdur úr leik eftir undankeppnina vegna þjófstarts.  Fékk hann því ekki að hlaupa í úrslitahlaupinu.
 
Það var síðan Kolbeinn Höður sem sigraði 400 m hlaup karla á tímanum 48,85 s.  Annar varð Ívar Kristinn Jasonarson úr ÍR á tímanum 49,20 s.  400 m hlaup kvenna sigraði Björg Gunnarsdóttir á sínum næst besta árangri innanhúss í greininni, 55,98 s.
 
Hörð barátta var í 60 m hlaupi kvenna.  Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir úr ÍR jafnaði sinn besta árangur þegar hún kom í mark á 7,69 s.  Hrafnhild sigraði jafnfram hlaupið.  Rétt á eftir Hrafnhild var Hafdís Sigurðardóttir úr UFA á tímanum 7,71 s.  Amy Harris varð þriðja á 7,73 s og fjórða Björg Gunnardóttir á nýju persónulegu meti, 7,79 s.  Steinunn Erla Davíðsdóttir átti ekkert síður gott hlaup í dag og náði að hlaupa í fyrsta skipti undir 8,00 s þegar hún kom í mark á tímanum 7,97 s.  
 
Langstökk kvenna sigraði þýska konan Sosthene Moguenara frá Þýskalandi.  Hún stökk lengst 6,36 m.  Hafdís Sigurðardóttir úr UFA varð önnur en hún náði að setja nýtt persónulegt met innanhúss, 6,21 m.  Hafdís á þó 6,36 m utanhúss frá því síðastliðið sumar.  Sveinbjörg Zophoníasdóttir varð þriðja með nýtt Íslandsmet í flokki 20-22 ára kvenna, 6,12 m.  En Sveinbjörg sló 29 ára gamalt met í eigu Bryndísar Hólm.  Breska stúlkan Amy Harris varð fjórða í röðinni en hún stökk lengst 6,05 m.  Því voru fjórar konur sem stukku yfir 6m í Laugardalshöllinni í dag.
 
Kári Steinn Karlsson úr ÍR sigraði í 3000 m hlaupinu í dag.  Hann kom í mark á tímanum 8:16,74 mín en Íslandsmet hans í greininni er 8:10,94 mín.  Marnar Djurhuus frá Færeyjum varð annar á nýju færeysku meti, 8:45,27 mín.  Þriðji varð Arnar Pétursson úr ÍR en hann stórbætti sinn persónulega árangur í dag.  Áður átti hann best 9:04,01 mín en kom í mark í dag á tímanum 8:46,41 mín.
 
800 m hlaup karla sigraði Kristinn Þór Kristinsson úr HSK á tímanum 1:53,24 mín.  Annar varð Björn Margeirsson á tímanum 1:56,40 mín.
 
60 m grindahlaup kvenna sigraði Arna Stefanía Guðmundsdóttir úr ÍR á tímanum 8,83 s.  Önnur varð Ásgerður Jana Ágústsdóttir á 9,59 s.  60 m grindahlaup karla sigraði Einar Daði Lárusson úr ÍR á tímanum 8,36 s.
 
Hástökkskeppni kvenna var hörkuspennandi í dag og þurfti að beita reglum um umstökk til að skera úr hver yrði sigurvegari.  Þær Kristín Lív Svabó Jónsdóttir úr ÍR og Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir úr UMSS voru hnífjafnar að lokinni venjulegri keppni, báðar stukku þær yfir 1,61 í jafn mörgum tilraunum.  Að lokum bar Kristín Lív sigur úr býtum en hún náði að vippa sér yfir 1,62 m í umstökkskeppninni.  Hástökk karla sigraði Hermann Þór Haraldsson úr FH en hann bætti sinn besta árangur um 4 cm í dag þegar hann stökk yfir 1,98 m.
 
 Kúluvarp kvenna sigraði Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr FH og kúluvarp karla sigraði Sindri Lárusson úr ÍR.  Sveinbjörg varpaði kúlunni 13,11 m og Sindri 16,08 m.  Var Sindri að bæta sinn besta árangur um 2 cm.
 
Stangarstökk karla sigraði Mark Wesley Johnson úr ÍR.  Hann vippaði sér yfir 4,72 m í dag.  Ingi Rúnar Kristinsson úr Breiðabliki varð annar með 4,52 m.
 
Keppt var í þríþraut kvenna í dag.  Greinarnar þrjár sem giltu til stiga voru kúluvarp, langstökk og 60 m grindahlaup.  Til stiga giltu þrjú fyrstu köstin í kúluvarpinu og þrjú fyrstu stökk keppenda í langstökkinu. Keppendur kepptu þó samhliða í sjálfri kúluvarpskeppninni og langstökkskeppninni og fengu því að klára 6 umferðir í báðum greinum.  Sigurvegari þríþrautarinnar varð Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr FH en hún fékk samtals 2733 stig fyrir árangur sinn í dag.
 
600 m hlaup 15 ára og yngri fór fram bæði í flokki stúlkna og pilta í dag.  Sigurvegarinn í stúlkna flokki, á nýju Íslandsmeti í flokki 14 ára stúlkna varð Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH.  Kom hún í mark á tímanum 1:33,34 mín.  Sigurvegari í flokki pilta varð Reynir Zoëga Geirsson úr Breiðabliki en hann kom í mark á tímanum 1:31,88 mín.

FRÍ Author