Frábær dagur hjá okkar keppnisfólki í dag á Smáþjóðaleikunum

Ívar Kristinn Jasonarson var einn þeirra sem lét heldur betur til sín taka í dag, en hann sigraði í 400 m grindarhlaupi á 53,21 sek sem er hans besti árangur í greininni og hljóp sig inn í úrslit í 200 m hlaupinu sem verður á laugardag. Tími hann í 200 m hlaupinu varð 21,91 sek. Guðmundur Heiðar Guðmundsson sem nýlega áður hafði lokið 110 m grindarhlaupi datt á síðustu grind, en hann var öruggur með annað sætið fram að því. Hann lauk því ekki keppni.
 
Litlu munaði að sigur okkar yrði tvöfaldur í langstökki karla, en lengst stökk Kristinn Torfason 7,24 m, en Þorsteinn Ingvarsson varð 3. með 7,10 m, aðeins 6 cm frá öðru sæti, en það var ekki fyrr en í lokaumferðinni að Giorgos Pullos frá Kýpur náði að komat fram úr honum.
 
Aníta Hinriksdóttir hristi af sér ósigur í 800 m hlaupinu á þriðjudag, þegar hún sigraði örugglega í frekar rólegu og taktísku 1500 m hlaupi á 4:26,37 mín. en María Birikisdóttir varð 5. í góðu hlaupi á 4:43,74 mín., sem er hennar besti árangur í greininni.
 
Kristinn Þór Kristinsson gerði sig líklegan til að ógna Kýpverjanum Amine Khadiri á lokasprettinum í 1500 m hlaupi, en varð að sætta sig við annað sæti á 3:52,91 sek. Hann bætti sinn árangur um 4 sek. í hlaupinu. Hlynur Andrésson, sem vann 5.000 m hlaupið á þriðjudag kom þriðji í mark á 3:56,82 mín., en hann bætti sinn árangur einnig talsvert, eða um 3 sek.
 
Arna Stefanía Guðmundsdóttir var ein þeirra sem hreinlega blómstraði í dag en hún vann 400 m grindarhlaupið sannfærandi og varð önnur í 100 m grind. Hún hljóp lengri grindina á 60,77 sek, sem er bæting og þá styttri á 14,09 sek. sem er undir lágmarki á EM unglinga í sumar og hennar besti árangur í greininni. Agnes Erlingsdóttir varð fjórða í 400 m grindinni á 65,01 sek.

Steinunn Erla Davíðsdóttir varð 5. í 400 m kvenna á 56,67 sek. Þetta er hennar besti árangur í greininni.
 
Guðni Valur Guðnason sigraði í kringlukasti með 56,40 m, sem er bæting á hans besta árangri um 79 cm, en Hilmar Örn Jónsson varð fimmti með 43,96 m.
 
Hulda Þorsteinsdóttir stökk 3,60 m og varð í öðru sæti, en Bogey Ragnheiður Leósdóttir stökk 3,50 m en hún varð í 3. sæti. Hulda keppti nú í fyrsta sinn utanhúss frá árinu 2011, en hún hefur strítt við þrálát meiðsli lengi en er að ná sér á strik aftur
 
Kolbeinn Höður Gunnarsson stóð í ströngu en hann varð annar í 400 m hlaupi á 48,44 sek og hljóp síðan undannrásir í 200 m skömmu síðar og vann sinn riðil á 21,62 sek, sem er besti tími dagsins. Kormákur Ari Hafliðason varð 5. á 50,76 sek. í 400 m hlaupinu. Þetta er hans langbesti árangur utanhússs í greinni.
 
Einar Daði Lárusson varð annar í 110 m griend á 14,71 sek., sem er hans 10. besta hlaup í greininni og Guðmundur Heiðar Guðmundsson fjórði á 15,24 sek. Þetta er bæting hjá Guðmundi um 20/100 sek.
 
Vigdís Jónsdóttir var ekki langt frá sínu besta í sleggjukasti, en hún þeytti sleggjunni lengst 55,40 m og varð í öðru sæti, en María Óska Felixdóttir varð þriðja með 46,67 m, en greinin vannst á 60,09 m. Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir tók siflur í kringlukasti en hún kastaði 42,13 m, en Kristín Karlsdóttir varð þriðja með 36,64 m. Þær Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir og Selma Líf Þórólfsdóttir fóru báðar yfir 1,67 m í hástökki kvenna. Þóranna varð í 4.-5. sæti en Selma í því sjötta. Þóranna fór yfir 1,60 í fyrstu tilraun, en Selma í annarri.
 
Úrslit dagsins má sjá hér á pdf og úrslit mótsins í heild sinni hér.

FRÍ Author