Frábær fyrri dagur í Þýskalandi

Fyrri degi á Bauhaus Junioren Gala í Mannheim, Þýskalandi er lokið. Íslensku krakkarnir áttu frábæran dag þar sem sett var nýtt Íslandsmet, aldursflokkamet, tvö gullverðlaun, ein silfurverðlaun og eitt brons.

Fimmtán ára gamalt Íslandsmet Sunnu Gestsdóttir í 100 metra hlaupi var bætt í tvígang. Fyrst var það Tiana Ósk Whitworth sem gerði það í undanrásunum þegar hún kom í mark á 11,57 sekúndum. Fyrra met Sunnu var 11,63 sekúndur. Í úrslitahlaupinu bætti Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir glænýtt Íslandsmet Tiönu þegar hún sigraði í hlaupinu á 11,56 sekúndum. Tvöfaldur íslenskur sigur var því staðreynd þar sem Guðbjörg fékk gull og Tiana silfur. Nánar um þessi met og myndbönd af hlaupunum má finna hér og hér.

Erna Sóley Gunnarsdóttir fékk gull í kúluvarpi með því að kasta lengst allra keppenda eða 15,90 metra. Erna átti frábæra kastseríu þar sem fjögur af sex köstum hennar dugðu til sigurs. Erna á best 16,13 metra sem er aldursflokkamet 18-19 ára og 20-22 ára í greininni.

Í 4×100 metra boðhlaupi komu íslensku stelpurnar þriðjar í mark á 45,75 sekúndum. Tími þeirra er bæting á aldursflokkametinu í flokki 18-19 ára og 20-22 ára. Sama sveit átti það met fyrir frá því á Smáþjóðaleikunum fyrr í sumar. Þessi tími er einnig þriðji besti tími í kvennaflokki. Þær fá annað hlaup á morgun til þess að bæta sig enn frekar. Sveitina skipuðu Birna Kristín Krisjánsdóttir, Þórdís Eva Steinsdóttir, Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.

Valdimar Hjalti Erlendsson varð fjórði í kringlukasti. Lengsta kast hans var 57,16 metrar sem er ekki langt frá aldursflokkameti hans í greininni sem er 57,54 metrar. Elísabet Rut Rúnarsdóttir þurfti að hætta keppni í sleggjukastinu vegna meiðsla. Hún átti fjögur fín köst en öll ógild.

Aðstæður fyrir 400 metra hlaup voru krefjandi þar sem mikill hiti og sól var á vellinum. Hinrik Snær Steinsson var að bæta sig með því að hlaupa á 49,04 sekúndum. Innahúss hefur hann hinsvegar hlaupið undir 49 sekúndum. Hann varð í þriðji í sínum riðli og tólfti í heildina. Þórdís Eva Steinsdóttir átti ágætt 400 metra hlaup. Hún hefur verið að glíma við meiðsli í kálfa síðustu vikur og var að keppa í fyrsta skipti eftir meiðsli.