EM í utanvegahlaupum var haldið í Annecy, Frakklandi í dag. Brautin var 58 km. með 3500 m. hækkun. Til leiks voru skráðir 85 karlar frá 25 þjóðum og 61 kona frá 22 þjóðum. Íslenska liðið stóð sig frábærlega en kvennaliðið hafnaði í sjötta sæti í landsliðskeppninni og karlaliðið hafnaði í ellefta sæti í landsliðskeppninni.
Í einstaklingskeppni karla varð Þorbergur Ingi Jónsson (UFA) fyrsti Íslendingurinn í mark en í 23. sæti í heildina en hann hljóp á tímanum 5:32,40 klst. Þá var Þorsteinn Roy Jóhannsson (FH) í 39. sæti á tímanum 5:48,10 klst., Sigurjón Ernir Sturluson (FH) í 44. sæti á tímanum 5:58,53 klst. og Halldór Hermann Jónsson (UFA) í 54. sæti á tímanum 6:12,51 klst.
Í einstaklingskeppni kvenna varð Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) í 6. sæti en hún hljóp á tímanum 6:10,54 klst. Halldóra Huld Ingvarsdóttir (FH) varð í 29. sæti á tímanum 6:55:30 klst., Íris Anna Skúladóttir (FH) Í 39. sæti á tímanum 7:09,38 klst. og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (UFA) í 44. sæti á tímanum 7:28,44 klst.
Úrslit mótsins má finna hér.
“Það er ótrúlega gaman að upplifa hvað við eigum í raun góða utanvegahlaupara. Á undanförnum árum hefur Frjálsíþróttasamband Íslands unnið þrotlausa vinnu við að byggja upp umgjörð og halda úti verkefnum fyrir okkar bestu utanvegahlaupara og sú vinna er svo sannarlega að skila sér. Það fengum við að upplifa hér í dag á Evrópumeistaramótinu. Mesta vinnan er þó alltaf á herðum hlauparanna okkar sem hlupu eins og vindurinn hér í logninu í Annecy í dag og gáfu allt í þetta. Ég vil þakka þessum flottu hlaupurum fyrir að gefa allt í þetta verkefni og færa okkur fram veginn og ofar á afrekslistana í utanvegahlaupum. Stórkostleg frammistaða bæði hjá konum og körlum, ég gæti ekki verið ánægðari,” sagði Friðleifur Friðleifsson formaður langhlaupanefndar FRÍ.