Frábær árangur hjá Arnari og Trausta um helgina

Langhlauparinn Arnar Pétursson ÍR keppti í 10 km götuhlaupi í Leverkusen í Þýskalandi um helgina. Aðstæður í hlaupinu voru frábærar auk þess sem brautin var mjög hröð og nánast flöt, og lítið var um beygjur. Keppnin var mikil og þétt sem kom sér vel og náði Arnar að klára sig mjög vel. Hann endaði á 4. besta tíma Íslendings frá upphafi, 31:05 mín, og hafnaði í 6. sæti en hlaupið vannst á 29:58 mín. Bætti hann sig um 50 sekúndur í hlaupinu sem er frábær árangur.

Eins og áður segir er Arnar nú með 4. besta tíma Íslendings og stekkur upp úr 6. sætinu en þeir Jón Diðriksson, Kári Steinn Karlsson og Sigurður P. Sigmundsson eiga betri tíma, 30:11 mín, 30:18 mín og 31:03 mín. Arnar undirbýr sig nú fyrir Heimsmeistaramótið í hálfu maraþoni sem fer fram í Valencia á Spáni síðar í þessum mánuði og var hlaupið um helgina hluti af undirbúningi fyrir það mót.

Trausti Þór Þorsteins Ármanni náði einnig stórgóðum árangri um helgina er hann keppti í 800 m hlaupi á ECAC & IC4A Championships mótinu sem fór fram í Boston í Bandaríkjunum. Trausti hljóp á tímanum 1:53,70 mínútum en það er persónulegt met hjá honum og 11. besti árangur Íslendings frá upphafi í greininni. Trausti stundar nú nám við Wagner College í New York og kemur vel undan vetri.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Arnari og Trausta Þór innilega til hamingju með stórglæsilegan árangur!