Reykjavík International Games fór fram í Laugardalshöll í dag. Um 80 keppendur voru skráð til leiks og þar af sex erlendir. Fimm mótsmet féllu og eitt aldursflokkamet. Veitt voru verðlaun fyrir stigahæstu afrekin samkvæmt stigatöflu World Athletics í kvenna og karla flokki. Það var Chase Ealey frá Bandaríkjunum sem var með stigahæsta afrek kvenna. Hún hlaut 1158 stig fyrir árangur sinn í kúluvarpi. Hún varpaði kúlunni 19,21 metra sem er nýtt mótsmet og persónuleg bæting innanhúss hjá henni. Það var Hollendingurinn Sven Poelmann sem var með stigahæsta afrek karla. Hann hlaut 1070 stig fyrir árangur sinn í kúluvarpi. Hann varpaði kúlunni 19,15 metra sem er einnig mótsmet í greininni. Guðni Valur Guðnason (ÍR) bætti sinn persónulega árangur í kúluvarpi er hann varpaði kúlunni 18,84 metra.


Naomi Sedney frá Hollandi kom fyrst í mark í 60 metra hlaupi kvenna og kom í mark á tímanum 7,39 sek. sem er nýtt sem er mótsmet. Guðbjörg Jóna var önnur á tímanum 7,44 sek. sem er aðeins sekúndubroti frá Íslandsmetinu hennar. Tiana Ósk Whitwvar svo þriðja á 7,45 sek.
Það var hin 12 ára ára Freyja Nótt Andradóttir (FH) sem kom fyrst í mark í 60 metra hlaupi U16 ára. Hún kom í mark á tímanum 8,06 sek sem er aldursflokkamet í 12 og 13 ára flokki.
Hjá piltunum var það Arnar Logi Brynjarsson (ÍR) sem sigraði með yfirburðum. Hann kom í mark á 7,25 sek. sem er mótsmet. Hann var einnig fyrstur í 600 metra hlaupi í U16 ára og kom í mark á tímanum 1:31,68 mín.

Í hástökks einvíginu var það Kristján Viggó Sigfinnsson (Ármann) sem hafði betur og jafnaði sinn ársbesta árangur með stökk upp á 2,15. Finninn Matias Mustonen var annar með stökk upp á 2,04. Í þriðja sæti var Elías Óli Hilmarsson (FH) með stökk upp á 1,90.
Í 200 metra hlaupi kvenna var það Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) sem kom fyrst í mark á tímanum 24.05 sek. sem er hennar besti í tími í ár. Tiana Ósk Whitworth (ÍR) var önnur á 24,50 sek. og Finninn Milja Thureson var þriðja á 24,67 sek.
Úrslit má finna hér.

