Flottur árangur á Aðventumóti Ármanns

Hið árlega Aðventumót Ármanns fór fram í Laugardalshöll laugardaginn 16. desember sl.

Mótið hófst með þrautabraut 6-7 ára, síðan tók fjórþraut 10-13 ára við og að lokum fór fram mót fyrir keppendur 14 ára og eldri.

Aðventumótið er eitt fyrsta innanhússmótið þar sem keppt er í karla-og kvennaflokki. Mjög góður árangur náðist á mótinu og voru margir keppendur að taka þátt í sínu fyrsta móti eftir stífar æfingar í haust og vetur.

Helstu úrslit:

Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir ÍR náði besta árangri mótsins er hún hljóp 200 m á tímanum 25,14 sekúndum. Hlaut hún 1004 stig fyrir þann árangur. Hér má sjá myndband af hlaupinu.

Kristján Viggó Sigfinnsson Ármanni bætti sinn persónulega árangur um 5 cm innanhúss er hann stökk yfir 2,00 m. Setti hann um leið aldursflokkamet í 14 ára og 15 ára flokki pilta. Kristján náði besta árangri mótsins í karlaflokki. Hér má sjá myndband af 2,00 metra stökkinu.

Hér fyrir neðan má sjá mynd af Hrafnhildi Eir Hermóðsdóttur og Kristjáni Viggó Sigfinnssyni en þau voru stigahæstu keppendur mótsins.

Mjög góður árangur náðist í 60 m hlaupi kvenna en alls hlutu 5 konur yfir 900 stig. Birna Kristín Kristjánsdóttir Breiðabliki sigraði í hlaupinu og bætti sinn persónulega árangur er hún hljóp á tímanum 7,83 sekúndum. Helga Margrét Haraldsdóttir ÍR hafnaði í 2. sæti á tímanum 7,90 sekúndum og Elma Sól Halldórsdóttir ÍR varð þriðja á tímanum 8,02 sekúndum og voru þær báðar að bæta sinn persónulega árangur.

Hér að neðan má sjá mynd af þeim konum sem hlutu yfir 900 stig fyrir árangur sinn í 60 m hlaupi. Þeir keppendur sem hlutu yfir 900 stig hlutu verðlaun frá íslenskum grænmetisbændum – Sölufélagi garðyrkjumanna.

Frá vinstri: Elma Sól Halldórsdóttir, Helga Margrét Haraldsdóttir, Birna Kristín Kristjánsdóttir, Irma Gunnarsdóttir og Katrín Steinunn Antonsdóttir.

Sindri Freyr Seim Sigurðsson Heklu setti glæsilegt aldursflokkamet í 200 m hlaupi í flokki pilta 14 ára er hann hljóp á tímanum 24,50 sekúndum.

Björn Margeirsson Ármanni setti glæsilegt aldursflokkamet í 400 m hlaupi í flokki 35-39 ára karla er hann hljóp á tímanum 53,48 sekúndum.

María Birkisdóttir USÚ kom fyrst í mark í 1000 m hlaupi kvenna og bætti sinn besta árangur er hún hljóp á tímanum 2:57,39 mínútum.

Bjartmar Örnuson KFA sigraði með yfirburðum í 3000 m hlaupi karla og bætti sinn besta árangur töluvert er hann kom í mark á tímanum 8:46,39 sekúndum.

Hér má sjá þau myndbönd sem Frjálsíþróttavefurinn Silfrið tók frá mótinu.