Fleiri mótsmet á seinni degi MÍ 15-22 ára

Laugardalurinn hélt áfram að sýna sínar bestu hliðar á seinni degi Meistaramóts Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum. Veðrið og aðstæður voru eins og þær gerast bestar. Það var þó ekki einungis Laugardalurinn sem sýndi sýnar bestu hliðar heldur gerðu keppendur það einnig. Persónulegar bætingar voru margar og mótsmet héldu áfram að falla sem og fyrri daginn.

Sindri Freyr Seim Sigurðsson, HSK/Selfoss, keppti í sjö greinum um helgina. Hann fékk sex gullverðlaun, eitt silfur og setti eitt mótsmet. Mótsmetið setti hann í dag í 200 metra hlaupi 15 ára pilta þegar hann hljóp á 23,95 sekúndum (+1,7 m/s).

Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki, fékk einnig sex gullverðlaun um helgina. Hún keppti í sex greinum og sigraði þær því allar. Í dag setti hún eitt mótsmet í 100 metra grindarhlaupi stúlkna 16-17 ára á tímanum 14,80 sekúndur (+0,5 m/s). Það er bæting hjá henni um rétt rúma hálfa sekúndu. Birna setti einnig þrjú mótsmet í gær.

Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki, fékk ásamt Birnu og Sindra sex gullverðlaun. Þau þrjú deila því flestum Íslandsmeistartitlum í sínum aldursflokki í ár. Irma hlaut einnig tvö silfur og eitt brons. Í gær setti hún mótsmet í kúluvarpi stúlkna 20-22 ára.

Björn Þór Gunnlaugsson, Ármanni, setti mótsmet í 800 metra hlaupi pilta 15 ára þegar hann hljóp á tímanum 2:06,05 mínútum.

Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA, setti tvö mótsmet í dag í 80 metra grindarhlaupi og langstökki 15 ára stúlkna. Í grindarhlaupinu sigraði hún á tímanum 11,95 sekúndum (+0,0 m/s) og í langstökkinu stökk hún lengst 5,61 metra (+0,9 m/s).

Iðunn Björg Arnaldsdóttir, ÍR, setti einnig tvö mótsmet í dag. Í 800 metra hlaupi og 3000 metra hlaupi 16-17 ára stúlkna. 800 metra hlaupið hljóp hún á 2:22,32 mínútum og 3000 metrana á 11:35,17 mínútum.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir, ÍR, setti mótsmet í sleggjukasti stúlkna 16-17 ára þegar hún kastaði 63,40 metra. Í stangarstökki stúlkna 20-22 ára setti Stella Dögg Eiríksdóttir Blöndal mótsmet þegar hún stökk 3,0 metra.

Öll úrslit má finna hér