Fjórir íslenskir svæðismeistarar í Bandaríkjunum

Svæðismeistaramótin eru í fullum gangi í bandarískum háskólum og þar eru Íslendingar að gera frábæra hluti. Hilmar Örn varð svæðismeistari í sleggjukasti á föstudaginn og síðan þá hafa þrír íslenskir keppendur að auki orðið svæðismeistarar.

Trausti Þór Þorsteins keppir fyrir Wagner háskóla í New York og varð hann svæðismeistari í 1500 metra hlaupi. Trausti Þór er 21 árs og er á sínu fyrsta tímabili í Bandaríkjunum. Hann kom í mark á tímanum 3:47,94 mínútum sem er persónuleg bæting um 0,4 sekúndur. Aðeins 20 sekúndubrotum frá aldursflokkametinu sem Brynjúlfur Heiðar Hilmarsson setti árið 1982. Trausti keppir á ECAC & IC4A meistaramótinu sem telur hátt í 300 skóla í Norð-Austur Bandaríkjunum.

Sindri Hrafn Guðmundsson varð MWC svæðismeistari í spjótkasti. Sindri Hrafn hefur átt við meiðsli að stríða og kastaði því aðeins einu sinni en það dugði til sigurs. Sindri kastaði 73,69 metra og varð hann svæðismeistari í þriðja sinn á þremur árum. Með þessu kasti komst hann í sjöunda sæti á árslista bandarískra háskóla.

Erna Sóley Gunnarsdóttir varð Conference USA svæðismeistari í kúluvarpi fyrir Rice University. Erna Sóley kastaði lengst 15,72 metra og sigraði með nokkrum yfirburðum en hún kastaði tæpum metra en sú sem lenti í öðru sæti. Næst á dagskrá hjá henni er fjórðungs úrtökumót NCAA í Jacksonville Flórída 23. til 25. maí. Ef vel gengur þar þá keppir hún á lokamóti NCAA í Austin, Texas í byrjun júní.

Íslendingar eiga marga keppendur sem stunda nám og keppa fyrir bandaríska háskóla. Baldvin Þór Magússon er á sínu fyrsta ári og varð hann í áttunda sæti á sínu svæðismeistaramóti í 10.000 metra hlaupi á tímanum 32:44,19 mínútum. Hann keppti einnig í 5.000 metra hlaupi þar sem hann varð í sjöunda sæti á 15:06,03 mínútum. Hann keppir á meðal mjög sterkra skóla á MAC svæðismótinu.

Thelma Lind Kristjánsdóttir er á sínu fyrsta ári og keppir University of Virgina. Hún varð í fimmta sæti á ACC í kringlukasti með 50,15 metra kast. Vigdís Jónsdóttir varð einnig í fimmta sæti á sínu svæðismeistaramóti. Hún keppir í sleggjukasti fyrir Memphis háskóla. Hún kastaði lengst 60,30 metra.

Kolbeinn Höður Gunnarsson keppti í 4×100 metra boðhlaupi með liði sínu í Memphis háskóla. Þeir hlupu á 39,47 sekúndum og eiga góða möguleika á því að gera góða hluti á fjórðungsmóti NCAA.