Evrópumeistaramót U20 ára fer fram í Jerúsalem í Ísrael dagana 7.-10. ágúst. Fjórir Íslendingar keppa á mótinu; Birta María Haraldsdóttir í hástökki, Elías Óli Hilmarsson í hástökki, Hera Christensen í kringlukasti og Arndís Diljá Óskarsdóttir í spjótkasti. Þau keppa þau öll fyrir FH.
Fyrsti keppendinn er Birta María. Birta var með frábæra endurkomu í hástökki á þessu tímabili eftir árs fjarveru og opnaði utanhúss tímabilið sitt á 1,70m á Vormóti ÍR. Hún bætti síðan við einum sentímetra við á Meistaramóti Íslands 15-22 ára er hún stökk 1,71m. Birta keppti síðan á Norðurlandameistaramóti U20 ára þar sem hún kom öllum og sjálfum sér verulega á óvart og sigraði í keppninni með sjö sentímetra bætingu. Birta stökk 1,80m og náði um leið lágmarki á EM U20 ára. Hún átti áður 1,73m frá árinu 2020.
Birta keppir í undankeppni á mánudaginn 7. ágúst kl. 5:25 að íslenskum tíma. Úrslitin fara fram 9. ágúst kl 16:15 að íslenskum tíma.
Elías Óli á best 2,07m í hástökki frá því í vetur. Elías vann til silfurverðlauna á NM U20 ára sem fór fram fyrir rúmri viku síðan. Elías er búinn að stökkva hæst 2,02 í ár sem hann gerði á Evrópubikar.
Undankeppni í hástökki fer fram á þriðjudaginn 8. ágúst klukkan 14:00 að íslenskum tíma. Úrslitin eru á fimmtudaginn klukkan 6:00 að íslenskum tíma.
Hera Christensen átti best 41,00 fyrir tímabilið en hefur nú kastað lengst 49,73m. Hera hefur átt glæsilegt tímabil, varð meðal annars Norðurlandameistari U20 ára í kringlukasti og keppti fyrir landsliðið á Evrópubikar í Póllandi.
Hera kastar í undankeppni á miðvikudaginn 8. ágúst klukkan 5:00 eða klukan 6:10 að íslenskum tíma (fer eftir kasthópi). Úrslitin fara fram á fimmtudaginn 10. ágúst klukkan 16:52 að íslensku tíma.
Arndís Diljá Óskarsdóttir keppti einnig á Evrópubikar og bætti hún þar sinn persónulega árangur og náði um leið lágmarki á EM U20 ára. Arndís kastaði 48,57m og fylgdi því eftir með glæsilegu 48,06 metra kasti á Bauhaus Junioren Gala nokkrum dögum eftir.
Undankeppnin í spjótinu er á miðvikudaginn klukkan 7:27 eða klukkan 8:35 (fer eftir kasthópi). Úrslitin eru klukkan 15:10 á fimmtudaginn.
Við óskum þeim og þjálfurum þeirra Boga Eggertssyni sem þjálfar Arndísi, Elías og Birtu og Hilmari Erni Jónssyni sem þjálfar Heru til hamingju með valið.
Fylgdarlið
Bogi Eggertsson, þjálfari
Alexander Pétur Kristjánsson, sjúkraþjálfari
Íris Berg Bryde, fararstjóri
Allar upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu mótsins.