Fjórir Íslendingar á EM U20

Evrópumeistaramót undir 20 ára fer fram í Borås í Svíþjóð 18. – 21. júlí. Alls eru 1114 keppendur frá 49 þjóðum skráðir til keppni. Búast má við sterkri keppni í flestum greinum og á meðal keppenda eru tólf íþróttamenn sem leiða heimslistann í sinni grein í aldursflokknum 18-19 ára. Íslendingar eiga fjóra keppendur á mótinu. Erna Sóley Gunnarsdóttir sem keppir í kúluvarpi, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í 200 metra hlaupi, Valdimar Hjalti Erlendsson í kringlukasti og Þórdís Eva Steinsdóttir í 400 metra hlaupi.

Einnig höfðu Birna Kristín Kristjánsdóttir, Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Tiana Ósk Whitworth náð lágmarki á mótið. Birna og Elísabet taka ekki þátt þar sem þær munu keppa á Ólympíuhátið Evrópuæskunnar á sama tíma. Tiana Ósk getur ekki keppt vegna meiðsla. Einnig hafði Rut Sigurðardóttir verið valin til þess að hlaupa boðhlaup.

Erna Sóley Gunnarsdóttir keppir í kúluvarpi á mótinu. Erna Sóley stundar nám og keppir fyrir háskóla í Bandaríkjunum. Hún hefur verið á stöðugri uppleið síðustu mánuði og er komin upp í annað sæti íslenska afrekalistans. Erna á best 16,13 metra og er það aldursflokkamet 18-19 og 20-22 ára. Aðeins 20 sentimetrar eru í Íslandsmetið. Alls er 27 stúlkur skráðar í kúluvarpið og á Erna fjórða besta árangur þeirra utanhúss. Því á Erna góða möguleika á því að lenda í verðlaunasæti. Undankeppni kúluvarpsins fer fram klukkan 9:30 að íslenskum tíma á laugardaginn og úrslitin fara fram 8:30 á sunnudaginn. Til þess að komast beint í úrslit þarf að kasta yfir 15,40 metra.

Erna Sóley

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir keppir í 200 metra hlaupi. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún stimplað sig inn sem einn besti spretthlaupari í sögu Íslands. Hún á Íslandsmetið í 100 og 200 metra hlaupi og í 60 metra hlaupi deilir hún Íslandsmetinu með Tiönu Ósk. 29 stúlkur eru skráðar í 200 metra hlaupið og á Guðbjörg fimmta bestan tímann af þeim ásamt tveimur öðrum. Besti tími Guðbjargar í greininni er 23,45 sekúndur. Því á Guðbjörg góða möguleika á því að vinna sér inn verðlaun á mótinu. Undanrásir 200 metra hlaupsins fara fram klukkan 15:52 á föstudaginn, undanúrslit 9:00 á laugardaginn og úrslitin sjálf 16:25 sama dag. Allar tímasetningar miðast við íslenskan tíma.

Guðbjörg Jóna

Valdimar Hjalti Erlendsson keppir í kringlukasti. Hann keppti síðastliðna helgi á Meistaramóti Íslands í fullorðinsflokki þar sem hann nældi sér í silfur. Besti árangur hans í greininni er 58,45 metrar sem er aldursflokkamet 18-19 ára. 27 keppendur eru skráðir til keppni og á Valdimar fjórtánda besta árangurinn. Undankeppni kringlukastsins fer fram á föstudeginum klukkan 7:45/9:02 og úrslitin á sunnudeginum klukkan 8:05. Kasta þarf yfir 59 metra til þess að komast beint í úrslit.

Valdimar Hjalti

Þórdís Eva Steinsdóttir keppir í 400 metra hlaupi. Hún varð síðastliðna helgi Íslandsmeistari í greininni og hefur mikla alþjóðlega keppnisreynslu. Bæði með landsliði Íslands í fullorðinsflokki og unglingamótum. Þar á meðal EM U18 og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Hún á einnig fjölmörg aldursflokkamet í hinum ýmsu greinum. 32 stúlkur eru skráðar til keppni í 400 metra hlaupinu og á Þórdís 22. bestan árangur af þeim. Undanrásir 400 metra hlaupsins fara fram á fimmtudaginn klukkan 11:45, undanúrslitin á föstudaginn klukkan 14:55 og úrslitin á laugardaginn klukkan 16:46.

Heimasíðu mótsins má finna hér.