Fjórir erlendir keppendur í 60 m hlaupi kvenna

Spennandi keppni verður í 60 m hlaupi kvenna á frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna sem fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 3. febrúar nk. Þar munu 11 íslenskir spretthlauparar etja kappi við fjórar erlendar spretthlaupakonur. Íslandsmethafinn Tíana Ósk Whitworth ÍR sem á best 7,47 sek og fyrrum íslandsmethafinn Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir ÍR sem á 7,50 sek best eiga þar mesta möguleika á að veita erlendu keppendunum samkeppni.

Erlendu keppendurnir eru ekki af verri endanum. Þar fer fremst í flokki Hanna-Maari Latvala frá Finnlandi en hún á best 7,25 sek frá því árið 2013 og hefur verið meðal keppenda á Heims-og Evrópumeistaramótum undanfarin ár. Breski spretthlauparinn Diani Walker hefur verið að hlaupa gríðarlega vel að undanförnu. Hún varð enskur meistari í 100 m 2017 og bætti hún sinn besta tíma fyrr í þessum mánuði er hún hljóp á 7,35 sekúndum. Síðan munu tveir danskir spretthlauparar keppa en það eru þær Mathilde Kramer sem á best 7,52 sek frá 2017 og Louise Østergård á best 7,61 sek frá 2017.

Miðasala á frjálsíþróttakeppnina er í fullum gangi og má finna hér en miðinn fæst með 20% afslætti ef hann er keyptur í gegnum midi.is.

Ljósmyndari: Sportmyndir.is