Degi tvö á Meistaramóti Íslands er lokið og voru fjögur mótsmet slegin. Baldvin Þór Magnússon (UFA) setti mótsmet í 1500m hlaupi karla er hann hljóp á tímanum 3:50,87 mín. Sjálfur á hann Íslandsmetið í greininni sem er 3:40,36 mín. Fyrra mótsmetið átti Hlynur Andrésson (ÍR) en það var 3:53,28 mín frá því í fyrra. Fjölnir Brynjarsson (FH) var annar á tímanum 4:06,76 mín. og Stefán Kári Smárason (Breiðablik) var þriðji á tímanum 4:17,69 mín.
Sleggjukastarinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) setti einnig mótsmet en hún kastaði 68,70 m. Sjálf á hún Íslandsmetið í greininni, 70,47 m. Fyrra mótsmetið var 65,21 m. sem Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) átti en hún hafnaði í öðru sæti í ár með kast upp á 67,12 m. og Vigdís Jónsdóttir hafnaði í þriðja með kast upp á 57,67 m.
Kristófer Þorgrímsson (FH) bætti sinn persónulega árangur um þrjú sekúndubrot og setti mótsmet í 100m hlaupi karla. Hann hljóp á tímanum 10,58 sek. Í öðru sæti var Anthony Vilhjálmur Vilhjálmsson (Ármann) á tímanum 10,98 sek. og í þriðja sæti var Sveinbjörn Óli Svavarsson (UMSS) á tímanum 10,99 sek.
Sindri Hrafn Guðmundsson (FH) bætti sinn persónulega árangur og setti mótsmet í spjótkasti er hann kastaði 82,55 m. í dag. Fyrra mótsmetið var 80,66 m. og átti Guðmundur Sverrisson (ÍR) það frá árinu 2013. Í öðru sæti var Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) með kast upp á 75,56 m. og í þriðja sæti var Gunnar Eyjólfsson (FH) með kast upp á 47,44 m.
Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) sigraði í 1500m hlaupi kvenna á tímanum 4:35,16 mín. sem er nálægt hennar besta árangri í greininni en á MÍ í fyrra hljóp hún á 4:34,12 mín. Þetta er Íslandsmeistaratitill númer tvö hjá henni um helgina en hún sigraði einnig í 3000m hindrunarhlaupi í gær. Í öðru sæti var Embla Margrét Hreimsdóttir (FH) á tímanum 4:39,74 mín. og í þriðja var Íris Anna Skúladóttir (FH) á tímanum 4:48,33 mín.
Íslandsmethafinn Hilmar Örn Jónsson (FH) sigraði sleggjukast karla með kast upp á 72,31 m. en hann á best 77,10 m. Í öðru sæti var Ingvar Freyr Snorrason (FH) með kast upp á 48,10 m. sem er persónuleg bæting hjá honum og í þriðja sæti var Jón Bjarni Bragason (Breiðablik) með kast upp á 43,52 m.
María Helga Högnadóttir (FH) kom fyrst í mark í 100m hlaupi kvenna á tímanum 12,02 sek. Í öðru sæti var FH-ingurinn Ísold Sævarsdóttir á tímanum 12,18 sek. og Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) í þriðja sæti á tímanum 12,22 sek.
Í spjótkasti kvenna sigraði Arndís Diljá Óskarsdóttir (FH) er hún kastaði 46,46 m. Hennar besti árangur er 48,67 m. frá því á MÍ 15-22 ára um síðustu helgi. Í öðru sæti var Bryndís Embla Einarsdóttir (HSK/Selfoss) á nýju persónulegu meti, 44,61 m. og í þriðja sæti var María Rún Gunnlaugsdóttir (ÍR) með kast upp á 40,10 m.
Í kringlukasti karla var það Guðni Valur Guðnason (ÍR) sem sigraði með kasti upp á 61,01 m. Hans besti árangur er 69,35 m. frá árinu 2020. Í öðru sæti var Ingvi Karl Jónsson (FH) með kast upp á 48,34 m. og í þriðja sæti var Ísak Óli Traustason með kast upp á 41,41 m.
Hörð keppni var milli Birnu Kristínar Kristjánsdóttur (Breiðablik) og Irmu Gunnarsdóttur (FH) í langstökki en á endanum tók Irma gullið með stökki upp á 6,32 m. og Birna aðeins sentímeter frá Irmu tók silfrið, 6,31 m. Í þriðja sæti var Ísold Sævarsdóttir (FH) með stökk upp á 5,85 m.
Daníel Ingi Egilsson (FH) sigraði í langstökki karla með stökk upp á 7,28 m. en hann á best 8,21 m. frá því fyrr í sumar. Í öðru sæti var blikinn Guðjón Dunbar Diaquoi með stökk upp á 6,77 m. og Jón Þorri Hermannsson (KFA) var þriðji með stökk upp á 6,63 m.
Í 110m grindahlaupi karla var það Guðmundur Heiðar Guðmundsson (FH) sem sigraði á tímanum 15,17 sek. Í öðru sæti var Þorleifur Einar Leifsson (Breiðablik) á tímanum 15,77 sek. og í þriðja sæti var Jón Þorri Hermannsson (KFA) á tímanum 16,83 sek.
Í grindahlaupi kvenna var það Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) sem kom fyrst í mark á tímanum 14,35 sek. en hennar besti tími er 13,77 frá því í fyrra. Í öðru sæti var Hekla Magnúsdóttir (Ármann) á tímanum 15,53 sek. og í þríðja sæti var Sara Kristín Lýðsdóttir (FH) á tímanum 16,32 sek.
Thomas Ari Arnarsson (Ármann) sigraði í hástökki karla er hann stökk 1,83 m. en hans besti árangur í greininni er 1,88 m. frá því á MÍ 15-22 ára um síðustu helgi. Í öðru sæti var Ægir Örn Kristjánsson (Breiðablik) með stökk upp á 1,78 m. og í þriðja sæti var Kári Ófeigsson (FH) með stökk upp á 1,78 m.
Gunnar Eyjólfsson (FH) sigraði í stangarstökki karla á persónulegu meti er hann stökk 4,60 m. Þetta er bæting um 38 cm. hjá honum utanhúss en innanhúss á hann best 4,45 m. Í öðru sæti var Grétar Björn Unnsteinsson (Fjölnir) einnig á persónulegu meti, 4,38 m. og í þriðja sæti var Magnús Atlason (Ármann) með stökk upp á 3,48 m.
Í 400m hlaupi kvenna var það Eir Chang Hlésdóttir sem sigraði á tímanum 56,53 sek. en hennar besti tími í greininni er 55,01 sek. frá því í maí á þessu ári. Í öðru sæti var Vilhelmína Þór Óskarsdóttir (Fjölnir) á tímanum 58,70 sek. og í þriðja sæti var Hildur Vala Gísladóttir (ÍR) á tímanum 1:01,22 mín.
Í karlaflokki var það Hermann Þór Ragnarsson (Ármann) sem kom fyrstur í mark á tímanum 49,50 sek. sem er persónuleg bæting hjá honum. Í öðru sæti var Sæmundur Ólafsson (ÍR) á tímanum 49,58 sek. og í þriðja sæti var Bjarni Anton Theódórsson (Fjölnir) á tímanum 50,82 sek.
Heildarúrslit mótsins eru að finna hér.
Mótið heldur áfram á morgun og hefst keppni kl. 13:00.