Sex mótsmet á fyrri degi MÍ 15-22 ára

Fyrri dagur á Meistaramóti Íslands 15-22 ára fór fram í Kaplakrika í dag. Sex mótsmet féllu á þessum fyrri degi og hefðu getað verið tíu í viðbót en aðstæður voru ólöglegar. Mikill vindur var á vellinum í dag sem gerði mörgum erfitt fyrir en þeir sem fengu vindinn í bakið högnuðust vel og náðu frábærum árangri.

Í heildarstigakeppninni er ÍR með forystu með 289,5 stig, eftir með kemur Breiðablik með 183,5 stig og í þriðja sæti er HSK/Selfoss með 146 stig. ÍR er einnig með flest gullverðlaun eða 20 talsins.

Í stangarstökki stúlkna 20-22 ára vann Karen Sif Ársælsdóttir úr Breiðablik til gullverðlauna þegar hún stökk yfir 3,20 metra. Karen er ríkjandi Íslands- og Bikarmeistari í greininni innanhúss í fullorðinsflokki og var því að bæta öðru titli í safnið nú í sínum aldursflokk. Hér má lesa viðtal við Karen sem tekið var fyrr í sumar.

Karen Sif

Í hástökki voru sett tvö mótsmet, í flokki 16-17 ára pilta og stúlkna. Það voru Kristján Viggó Siggfinsson, Ármanni og Eva María Baldursdóttir, HSK/Selfossi sem gerðu það. Þau eru bæði ríkjandi Íslandsmeistarar í greininni og með þeim fremstu á Norðurlöndunum í sínum aldursflokki. Kristján Viggó stökk yfir 2,00 metra en hann á best 2,15 metra innanhúss fyrr á árinu. Eva María stökk yfir 1,78 metra og var að bæta sig um tvo sentimetra. Hún átti góða tilraun við 1,81 metra en rétt svo felldi þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Eva á nú einungis tíu sentimetra í Íslandsmet kvenna sem er orðið 30 ára gamalt. Það setti Þórdís Lilja Gísladóttir árið 1990 þegar hún stökk 1,88 metra.

Fjórða mótsmet dagsins kom í kúluvarpi stúlkna 20-22 ára. Það setti Erna Sóley Gunnarsdóttir, ÍR, þegar hún kastaði 15,21 metra og sigraði með miklum yfirburðum. Lengsta kast Ernu utanhúss er 16,13 metrar en innanhúss hefur hún kastað sex sentimetrum lengra sem er Íslandsmet kvenna innanhúss. Erna er framarlega í sínum aldursflokki í Evrópu en síðasta sumar vann hún til bronsverðlauna á EM U20.

Erna Sóley

Í 100 metra hlaupinu hjá piltunum sáust ótrúlegir tímar þar sem meðvindur var mikill. Í flokki 16-17 ára sigraði Sindri Freyr Seim Sigurðsson, HSK/Selfoss, á 11,01 sekúndu í meðvindi upp á 5,1 m/s. Hjá piltum 18-19 ára kom Óliver Máni Samúelsson, Ármanni, fyrstur í mark á 10,73 sekúndum (+5,5 m/s) og 20-22 ára sigraði Dagur Andri Einarsson, ÍR, á 10,80 sekúndum (+5,6 m/s).

Í 100 metra hlaupi hjá stúlkunum komu Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR fyrstar í mark í flokki 20-22 ára og 18-19 ára eins og við var búist. Tiana Ósk kom í mark á 11,68 sekúndum (+4,8 m/s) og Guðbjörg Jóna á 11,79 sekúndum (+5,6 m/s). Hjá stúlkum 16-17 ára sigraði Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA, á 12,11 sekúndum (+7,4 m/s).

Markús Birgisson, Breiðabliki, átti góðan dag þar sem hann vann til sjö verðlauna. Hann fékk gull í 100 metra hlaupi, 300 metra grindarhlaupi, 4×100 metra boðhlaupi, hástökki og stangarstökki. Í þrístökki fékk hann silfur og brons í 300 metra hlaupi. Hann keppir í flokki 15 ára pilta.

Markús

Fyrrum Íslandsmethafinn í sleggjukast, Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR, sigraði sleggjukastið örugglega í flokki stúlkna 18-19 ára með 60,19 metra kast. Þórdís Eva Steinsdóttir, FH, sigraði í 400 metra hlaupi 20-22 ára, fékk silfur í hástökki og 4×100 metra boðhlaupi og brons í 100 metra hlaupi.

Birnir Vagn Finnsson keppir í flokki 16-17 ára fyrir UFA. Hann vann tvenn gullverðlaun, í þrístökki og 400 metra grindarhlaupi, silfur í 100 metra hlaupi og brons í stangarstökki.

Birnir Vagn

Hér má sjá öll úrslit fyrri dags og hér má sjá myndir frá mótinu.