Fjögur gull til Birnu og fimm til Markúsar

Meistaramót Íslands 15-22 ára sem fram fór í Kaplakrika um helgina lauk í dag. Þrjú mótsmet féllu á þessum seinni degi og því tíu í heildina. Heildarstigakeppnina vann ÍR með 449,5 stig, í öðru sæti var Breiðablik með 355,5 stig og í því þriðja varð HSK/Selfoss með 244,5 stig. Flestu gullverðlaun fengu ÍR-ingar eða 26 gull.

Flesta Íslandsmeistaratitla í stúlknaflokki fékk Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki. Hún keppir í flokki 18-19 ára og fékk hún alls fjögur gullverðlaun, tvö silfurverðlaun og setti eitt mótsmet. Í hástökki sigraði hún á nýju mótsmeti þegar hún stökk yfir 1,68 metra, einnig sigraði hún í langstökki með 5,53 metra, þrístökki með 11,26 metra og í 60 metra grindarhlaupi þegar hún kom í mark á 9,11 sekúndum. Silfurverðlaun fékk hún í 60 metra hlaupi á tímanum 7,86 sekúndur. Í því hlaupi sigraði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Í 4×200 metra boðhlaupi var hún hluti af sveit Breiðabliks sem fékk silfurverðlaun. Gullverðlaun í því hlaupi hlaut sveit ÍR.

Markús Birgisson úr Breiðablik hlaut flesta Íslandsmeistaratitla í flokki pilta. Hann keppir í 15 ára flokki og fékk fimm gullverðlaun um helgina og setti eitt mótsmet. Hann keppti í fimm greinum á mótinu og fór því með sigur í þeim öllum. Í 200 metra hlaupi kom hann í mark á 25,11 sekúndum, í 60 metra grindarhlaupi á 9,09 sekúndum, í langstökki stökk hann 5,73 metra og í stangarstökki sett hann mótsmet þegar hann stökk yfir 2,80 metra. Hann var einnig hluti af sveit Breiðabliks í 4×200 metra boðhlaupi sem setti mótsmet í hlaupinu. Auk Markúsar var sveitin skipuð af Kristófer Daða Brynjarssyni, Róberti Elí Árnasyni og Guðjóni Dunbar Diaquoi. Tími þeirra var 1:44,49 mínútur.

Birnir Vagn Finnsson, UFA, sett mótsmet í 60 metra grindarhlaupi í flokki pilta 16-17 ára þegar hann sigraði á 8,28 sekúndum. Hann setti einnig mótsmet í 60 metra hlaupinu gær.

Hluti af sigurliði ÍR á mótinu

Hér má sjá öll úrslit mótsins.