Fimm stigahæstu afrek sumarsins

Eftir að HM í frjálsíþróttum lauk hafa flestir ef ekki allir lokið keppni á utanhússtímabilinu árið 2019. Frábær árangur náðist í mörgum greinum, Íslandsmet féllu, íslenskir keppendur á stórmótum og fjöldi verðlauna á sterkum alþjóðlegum mótum. Samræmd stigagjöf IAAF gerir fólki kleift að bera saman árangur milli greina og hér að neðan má sjá lista yfir fimm stigahæstu afrek íslensks frjálsíþróttafólks sumarið 2019.

1081 stig – Guðbjörg Jóna – 100m

Fimmta stigahæsta afrek sumarsins á Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir fyrir Íslandsmet sitt í 100 metra hlaupi kvenna. Metið setti hún á sterka unglingamótinu Bauhaus Junioren Gala í Mannheim í Þýskalandi. Tími hennar var 11,56 sekúndur en aðeins rúmum klukkutíma áður hafði Tiana Ósk Whitworth hlaupið á 11,57 sekúndum sem var bæting á Íslandsmeti Sunnu Gestsdóttur. Það met var 11,63 sekúndur og hafði staðið í 15 ár áður en það var bætt tvisvar sinnum sama daginn. Hér má lesa nánar um þetta magnaða afrek.

1090 stig – Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – 200m

Fjórða stigahæsta afrek sumarsins á einnig Guðbjörg Jóna fyrir að hlaupa 200 metrana á 23,45 sekúndum. Þessi árangur var einnig nýtt Íslandsmet en fyrra metið átti hún sjálf frá því á Ólympíuleikum ungmenna síðasta haust. Þetta hlaup var á Meistaramóti Íslands 15-22 ára á Selfossi í júní. Guðbjörg hefur sett þrjú Íslandsmet á árinu en það þriðja var jöfnun á Íslandsmeti Tiönu í 60 metra hlaupi. Hér má sjá myndband af 200 metra hlaupi Guðbjargar.

1096 stig – Aníta Hinriksdóttir – 1500m

Aníta Hinriksdóttir á þriðja stigahæsta afrek sumarsins. Aníta er þekktust sem 800 metra hlaupari en í sumar kom hennar besti árangur og þriðji besti árangur Íslendings, í 1500 metra hlaupi. Þeim árangri náði hún í Hollandi þegar hún hljóp á 4:14,00 mínútum og eru það 1096 IAAF stig. Aníta á Íslandsmetið í greininni sem er 4:06,43 mínútur og setti hún það árið 2017. Aníta hefur sýnt það síðustu ár að hún er í heimsklassa og hefur hún keppt á fjölmörgum stórmótum bæði í fullorðins- og unglingaflokki sem og Ólympíuleikunum árið 2016. Eitt hennar stærsta afrek er líklegast þegar hún vann til bronsverðlauna á EM innanhúss í 800 metra hlaupi árið 2017.

1121 stig – Hilmar Örn – Sleggjukast

Næst stigahæsta afrek sumarsins á Hilmar Örn Jónsson með nýju Íslandsmeti sínu í sleggjukasti. Kast Hilmars var 75,26 metrar frá því í Bandaríkjunum í apríl. Hilmar stundar þar nám og komst alla leið á bandaríska háskólameistaramótið þar sem hann fékk bronsverðlaun. Íslandsmet Hilmars er 37. lengsta kast ársins á heimsvísu og því á hann ágætis möguleika á sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 en þar verða 32 keppendur í sleggjukasti.

1148 stig – Guðni Valur – Kringlukast

Stigahæsta afrek ársins á kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason og því má segja að hann sé fremsti frjálsíþróttmaður Íslands um þessar mundir. Hann vann sér inn þennan titill með 64,77 metra kasti í Eistlandi í lok maí. Guðni var eini íslenski keppandinn á HM í frjálsum sem nýlega fór fram í Dóha, Katar og einnig var hann á meðal keppenda á Ólympíuleikunum árið 2016. Til þess að setja árangur Guðna í samhengi við aðrar greinar þá þyrfti að hlaupa 100 metrana á 10,17 sekúndum eða stökkva yfir 2,27 metra í hástökki til þess að fá 1148 IAAF stig. Kast Guðna er 30. lengsta kast ársins á heimsvísu og er hann því líklegur til þess að öðlast keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar.