FH ingar eru bikarmeistarar – 15 sigur FH í röð

Lið FH hlaut samtals 180,5 stig, 24,5 stigum meira en lið ÍR sem hafnaði í öðru sæti með 156 stig. Lið Breiðabliks varð í þriðja sæti með 141,5 stig. Í fjórða sæti varð lið Ármanns/Fjölnis með 125 stig, HSÞ varð í fimmta sæti með 109 stig og UMSS rak lestina með 58 stig og fellur í 2. deild.
 
FH sigraði bæði karla- og kvennakeppni mótins, en þrjú efstu lið í karlakeppninni urðu; FH með 95 stig, Breiðablik með 75 stig og ÍR með 72 stig.
Í kvennakeppninni hlaut FH 85,5 stig, ÍR varð í öðru sæti með 84 stig og Breiðablik í þriðja sæti með 66,5 stig.
 
Ágætur árangur náðist í mörgum greinum í dag, enda frábært keppnisveður í dag eins og í gær og þrjú mótsmet féllu í dag:
* Þórey Edda Elísdóttir FH stökk 4,30 metra í stangarstökki sem er besti árangur hennar á þessu ári og nýtt mótsmet, en það var 4,20m, sem hún átti sjálf frá árinu 2000.
* Bergur Ingi Pétusson FH kastaði sleggjunni 70,87 metra og bætti eigið mótsmet um 3,91m.
* Aðalheiður María Vigfúsdóttir Breiðabliki bætti eigið mótsmet í sleggjukasti um 1,60m, en hún kastaði 49,38m, sem er aðeins 59 sm frá íslandsmetinu sem Sandra Pétursdóttir setti fyrir tveimur dögum.
* Árangur Bergs Inga og Þóreyjar Eddu var besti árangur í karla- og kvennaflokki skv. stigatöflu IAAF.
 
Silja Úlfarsdóttir FH var sigursælasta kona mótsins, en hún sigraði í fjórum greinum, auk þess sem hún tryggði boðhlaupssveit FH sigur í báðum boðhlaupsgreinum mótsins.
Björgvin Víkingsson FH sigraði í þremur greinum í karlaflokki og tryggði boðhlaupssveit FH sigur í 1000m boðhlaupinu í síðasta spretti.
 
Heildarúrslit eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni, bæði í einstökum greinum og í stigakeppninni.
 
Vakin er athygli á því að á morgun mun RUV sýna sérstakan samantektarþátt um keppnina kl.15:00.
 
Bikarmeistarar FH 2008 (Mynd: Hafsteinn Óskarsson).
 

FRÍ Author