Um helgina fór fram MÍ innanhúss í Laugardalshöll. Fjögur mótsmet og tvö aldursflokkamet voru sett á mótinu og voru það FH-ingar sem urðu Íslandsmeistarar félagsliða.
ÍR- ingarnir Erna Sóley Gunnarsdóttir og Guðni Valur Guðnason sigruðu kúluvarpið í kvenna og karla flokki. Erna bætti 14 ára gamalt mótsmet Ásdísar Hjálmsdóttur um næstum 2 metra. Mótsmet Ásdísar var 14,98m en Erna varpaði kúlunni 16,94m. Í öðru sæti varð Katharina Ósk Emilsdóttir (ÍR) með kast upp á 12,39m og í þriðja sæti Hera Christensen (FH) með kast upp á 11,92 m. Guðni varpaði kúlunni 18,93 m sem er persónulegt met, en hann átti best 18,90m fyrir mótið. Sindri Lárusson (UFA) varð annar með kast upp á 16,19m og Kristján Viktor Kristinsson (ÍR) varð þriðji með kast upp á 14,91m.
Embla Margrét Hreimsdóttir (FH) varð Íslandsmeistari í 1500m hlaupi á nýju mótsmeti. Hún hljóp á 4:33,79 mín. Gamla mótsmetið átti Fríða Rún Þórðardóttir (ÍR) frá árinu 2010, 4:36,29mín. Öðru sætinu náði Halldóra Huld Ingvarsdóttir (FH) á tímanum 4:34,10s og því þriðja Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (UFA) á tímanum 4:44,35s. Embla varð einnig Íslandsmeistari í 800m hlaupi á tímanum 2:15,32mín, þar tryggði Guðný Lára Bjarnadóttir (Fjölni) sér silfrið á tímanum 2:17,58 mín og það þriðja Helga Lilja Maack (ÍR) á tímanum 2:18,83 mín.
Halldóra Huld Ingvarsdóttir (FH) varð Íslandsmeistari í 3000m hlaupi á nýju mótsmeti, 9:47,56 mín. Gamla mótsmetið átti Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) frá árinu 2021, 9:53,47 mín. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (UFA) varð önnur á tímanum 10:05,95 mín og Íris Dóra Snorradóttir (FH) þriðja á tímanum 10:10,17 mín.
Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) varð Íslandsmeistari í 60m grindahlaupi kvenna á tímanum 8,56s sem er bæði nýtt mótsmet og aldursflokkamet í flokkum stúlkna 18-19 ára og 20-22 ára. Sjálf átti hún fyrra aldursflokkametið í báðum flokkum sem var 8,60s. Fyrra mótsmetið átti María Rún Gunnlaugsdóttir (ÍR), 8,59s frá árinu 2021. Í öðru sæti varð María Helga Högnadóttir (FH) á tímanum 8,94s og í því þriðja Ísold Sævarsdóttir (FH) á tímanum 9,04s.
Sindri Karl Sigurjónsson (UMSB) bætti aldursflokkametið í 3000m hlaupi í flokki pilta 15 ára. Hann hljóp á tímanum 9:40,81 mín en fyrra aldursflokkametið átti Fannar Blær Austar Egilsson (USÚ), 9:45,55 mín frá árinu 2007.
Irma Gunnarsdóttir (FH) sigraði bæði í þrístökki og langstökki. Í þrístökkinu stökk hún 13,30m sem er aðeins 6cm frá Íslandsmeti hennar. Í öðru sæti varð Christina Alba Marcus Hafliðadóttir (Fjölni). Í langstökkinu stökk Irma 6,18m. Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðabliki) varð önnur með stökk upp á 5,73m og Ísold Sævarsdóttir (FH) varð þriðja með sömu lengd og Júlía en Júlía átti betri stökkseríu og hafnaði Ísold því í þriðja sætið.
Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) varð Íslandsmeistari í bæði 60m hlaupi og 200m hlaupi. Styttri sprettinn hljóp hann á 6,86s. Annar varð Kristófer Þorgrímsson (FH) á tímanum 6,96s og í því Ísak Óli Traustason (UMSS) á tímanum 7,14s. Kolbeinn varð einnig Íslandsmeistari í 200m og hljóp hann á 22,21s. Leó Þór Magnússon (FH) varð annar á tímanum 22,71s og Bjarni Anton Theódórsson (Fjölni) varð þriðji á tímanum 22,80s sem er hans besti árangur á tímabilinu.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) varð Íslandsmeistari í 400m hlaupi á tímanum 55,72s. Eir Chang Hlésdóttir var ekki lang á eftir henni á tímanum 55,77s. Vilhelmína Þór Óskarsdóttir (Fjölni) varð þriðja á tímanum 58,17 sek.
Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) varð Íslandsmeistari í 200m hlaupi á tímanum 24,60 sek. Öðru sætinu náði Ísold Sævarsdóttir (FH) á tímanum 25,56s og Vilhelmína Þór Óskarsdóttir (Fjölni) í því þriðja á tímanum 25,76s. Allar bættu þær sinn besta persónulega árangur.
FH Íslandsmeistarar félagsliða
Það var síðan lið FH sem tryggði sér titilinn Íslandsmeistar félagsliða en þau sigruðu bæði í karla og kvenna flokki með alls 60 stig. Í öðru sæti varð lið Breiðabliks með 28 stig og lið Fjölnis í því þriðja með 26 stig.
Heildarúrslit mótsins má finna hér.
Myndir frá mótinu munu birtast hér.