FH Bikarmeistari 2019

53. Bikarkeppni FRÍ utanhúss fór fram í Kaplakrika í dag þar sem FH stóð uppi sem þrefaldur sigurvegari. FH endaði með 135 stig og tíu gullverðlaun, sautján stigum meira en ÍR sem varð í öðru sæti með 118 stig og sex gull. Í þriðja sæti varð Breiðablik með 86 stig. FH sigraði svo bæði karla- og kvennakeppnina, ÍR varð í öðru sæti og Breiðablik í þriðja sæti.

Ísak Óli og María Rún með gullnar bætingar

FH-ingar byrjuðu mótið af krafti og tóku forystuna í heildarstigakeppninni eftir fjórar greinar. Eitt gull og þriggja stiga forskot á ÍR og forystuna átti FH eftir að halda út allt mótið.

Fyrstu gullverðlaun dagsins fengu hinsvegar ÍR-ingar og var það Hulda Þorsteinsdóttir sem fékk þau fyrir stangarstökk. Þar sigraði hún með miklum yfirburðum þegar hún stökk yfir 4,05 metra.

Í grindarhlaupinu áttu þrautafólkið Ísak Óli Traustason, UMSS og María Rún Gunnlaugsdóttir, FH gott hlaup. Þau sigldu heim átta stigum og gullverðlaunum fyrir sín lið og voru bæði að bæta sig þrátt fyrir bleytu og léttan mótvind. Ísak Óli hljóp 110 metra grindarhlaupið á 14,90 sekúndum en aðeins tíu aðrir Íslendingar hafa hlaupið undir fimmtán sekúndum. María Rún hljóp 100 metra grindarhlaupið á 14,25 sekúndum og var að bæta sig um 13/100 úr sekúndu.

Jóhann Björn á besta tíma Íslendings í ár

Í 100 metra hlaupinu hlupu tveir undir ellefu sekúndum. Það voru Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS og Kolbeinn Höður Gunnarsson, FH. Jóhann Björn sigraði á 10,72 sekúndum og er það besti tími Íslendings í greininni í ár. Kolbeinn Höður varð annar á 10,89 sekúndum.

Í 100 metra hlaupi dró til tíðinda þegar Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR þjófstartaði. Fyrir hafði hún verið sigurstranglegust enda átti hún langbestan tíma keppenda og er Íslandsmethafinn í greininni. Andrea Torfadóttir, FH kom því fyrst í mark á 12,42 sekúndum og átta stig í pottinn fyrir FH en því miður ekkert fyrir ÍR. Eftir þessa grein jók FH forystu sína til muna og ljóst var að á brattan yrði að sækja fyrir ÍR en fyrir mótið höfðu þessum tveimur liðum verið spáð jafnri baráttu um bikarinn.

FH sigur í 400 metra hlaupi

Í 400 metra hlaupi var spennandi barátta milli FH og ÍR. Fyrir FH-inga hlupu systkinin Þórdís Eva Steinsdóttir og Hinrik Snær Steinsson og fyrir ÍR-inga Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Ívar Kristinn Jasonarson. Hlaupin voru hnífjöfn allt fram á lokametra en á endanum hafði FH betur í karla- og kvennaflokki. Þórdís Eva og Hinrik Snær sem eru nýkrýndir Íslandsmeistarar í greininni héldu sigurgöngu sinni áfram. Þórdís á 56,47 sekúndum og Hinrik á 49,01 sekúndu.

Vigdís með mótsmet í sleggjukasti

Í sleggjukasti sigraði Vigdís Jónsdóttir, FH, á nýju mótsmeti þegar hún kastaði 59,00 metra og í spjótkasti sigraði Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR þegar hann kastaði 69,70 metra.

Í þrístökkinu munaði einungis tveimur sentimetrum á fyrsta og öðru sætinu. Þar voru Kristinn Torfason, FH, og Bjarki Rúnar Kristinsson, Breiðablik, sem stukku lengst allra. Lengsta stökk þeirra beggja kom í seinustu umferð og á endanum var það Kristinn sem hafði sigurinn. Hann stökk 13,57 metra en Bjarki Rúnar 13,55 metra.

Þegar hér er komið við sögu er tíu greinum af átján lokið og situr FH í fyrsta sæti með 75 stig og sex gull og ÍR í öðru með 60 stig og tvö gull.

Fjögur ÍR gull í röð og Erna Sóley með mótsmet

ÍR-ingar sýndu styrk sinn í 1500 metra hlaupi og sigruðu bæði í kvenna- og karlaflokki. Andrea Kolbeinsdóttir kom fyrst í mark á 4:49,88 mínútum og Sæmundur Ólafsson á 4:04,36 mínútum.

Í kúluvarpi og kringlukasti tóku ÍR-ingar svo tvö gull til viðbótar og því komin með sex gullverðlaun í heildina. Þessi tvö gull unnu Erna Sóley Gunnarsdóttir með því að kasta kúlunni 14,85 metra, sem er nýtt mótsmet, og Guðni Valur Guðnason fyrir 57,33 metra kringlukast. Þau hafa bæði verið að gera frábæra hluti á alþjóðlegum vettvangi en nýlega vann Erna til bronsverðlauna á EM U20 og þá hefur Guðni Valur keppt á Ólympíuleikunum.

Hin magnaða María Rún

Í langstökki sigraði María Rún Gunnlaugsdóttir, FH. Hennar lengsta stökk kom í fimmtu umferð og var það 5,77 metrar. Hún er svo sannarlega þyngdar sinnar virði í gulli því hún keppti í þremur greinum, fékk gull í þeim öllum og safnaði 24 stigum fyrir FH. Auk langstökksins fékk María gull í grindarhlaupi og 1000 metra boðhlaupi. Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki, varð önnur með 5,63 metra stökk og Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR, þriðja með 5,47 metra stökk.

María Rún

Tveir yfir tveimur metrum í hástökki

Í hástökkinu bættu sjö af átta keppendum sinn besta árangur. Einnig stukku tveir keppendur yfir tvo metra en það er fátítt að slíkt gerist hér á landi. En fyrir daginn í dag höfðu einungis fimm Íslendingar stokkið yfir tvo metra frá aldarmótum. Í dag voru það Örvar Eggertsson, FH, og Benjamín Jóhann Johnsen, ÍR sem stukku báðir 2,01 metra. Benjamín felldi hinsvegar 1,95 metra einu sinni á meðan Örvar gerði það ekki og því var gullið Örvars. Örvar er þekktari sem knattspyrnumaður en hann leikur með úrvalsdeildarliði Víkings. Hann hefur því enga afsökun fyrir því að vinna ekki skallabolta í komandi leikjum.

Svarthvítt boðhlaup

Oftar en ekki ráðast úrslit bikarkeppninnar í boðhlaupinu og því mikið undir. Það var ekki staðan í dag því fyrir boðhlaupin hafði FH þrettán stiga forskot á ÍR. Því hefði verið nóg fyrir FH að hlaupa öruggt og gera gild en gerðu gott betur en það og sigruðu bæði í karla- og kvennaflokki. Kvennasveit FH samanstóð af Andreu Torfadóttur, Melkorku Rán Hafliðadóttur, Þórdísi Evu Steinsdóttur og Maríu Rún Gunnlaugsdóttur. Tími þeirra í 1000 metra boðhlaupinu var 2:16,20 mínútur. Karlasveit FH samanstóð af Daða Lár Jónssyni, Kolbeini Heði Gunnarssyni, Hinriki Snæ Steinssyni og Kormáki Ara Hafliðasyni. Tími þeirra var 1:58,45 mínútur.

Öll úrslit mótsins má sjá hér.