Fellur Íslandsmet í 800 m hlaupi kvenna?

Það stefnir í spennandi keppni í 800 m hlaupi kvenna á frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna sem fer fram á morgun. Hlaupadrottningin Aníta Hinriksdóttir ÍR fær þar verðuga samkeppni en þrír erlendir hlauparar munu keppa í hlaupinu. Það eru þær Meghan Manley frá Bandaríkjunum, Emily Cherotich frá Kenýa og Femke Bol frá Hollandi. Besti tími Anítu er 2:00,05 mínútur frá því á Demantamótinu í Osló síðasta sumar.

Meghan Manley á best 2:03,06 mínútur utanhúss frá því í fyrra og hljóp á 2:06,65 þann 27. janúar sl. og Emily Chemprotich á best 2:00,10 mín utanhúss frá árinu 2016 en hljóp á 2:00,18 síðasta sumar. Femke Bol er skráð til leiks í 400 m hlaupi á RIG og verður einnig héri í 800 m hlaupinu.

Aníta hefur fjórum sinnum sett Íslandsmet í 800 m hlaupi á Reykjavíkurleikunum en það gerði hún árin 2012, 2013, 2014 og 2017. Metið frá því árið 2017 stendur enn og er það 2:01,18 mín.

800 m hlaup kvenna er síðasta grein mótsins og hefst hún kl. 14:45.

Miðasala á frjálsíþróttakeppnina er enn í fullum gangi á midi.is og fæst miðinn með 20% afslætti þegar hann er keyptur á netinu.

Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Anítu góðs gengis í hlaupinu á morgun!

Ljósmyndari: Sportmyndir.is