Falla metin á 82. Meistaramóti Íslands um helgina?

Ef keppendalistar eru skoðaðir kemur í ljós að 15 karlar sem urðu íslandsmeistarar í fyrra eru skráðir til leiks í sömu greinum nú, en alls er keppt í 19 keppnisgreinum karla á mótinu og geta því reynt að verja titla sína í ár.
Það er aðeins í 1500m hlaupi, 110m grind, 400m grind og spjótkasti sem íslansmeistarar sl. árs eru ekki með.
Í kvennflokki eru hinsvegar 11 íslandsmeistarar sl. árs skráðar í þær 18 keppnisgreinar sem keppt er í í kvennaflokki.
 
Falla íslandsmet um helgina?
13 íslandsmet hafa verið sett það sem af er þessu ári utanhúss af þremur körlum og fjórum konum, en langt er síðan svo mörg met hafa fallið á einu ári. Það er þó mjög líklegt að íslenskt frjálsíþróttafólk hafi ekki sagt sitt síðasta orð í þesssum efnum ennþá og góðar líkur eru á að met falli á Meistaramótinu um helgina. Það er einkum metið í sleggjukasti kvenna sem er mjög heitt og þar eru þrjár konur sem hafa kastað frá 49,82-49,97 metra að undanförnu, en íslandsmetið féll síðast 3. júlí sl. og var það Sandra Pétursdóttir ÍR sem bætti það í 49,97 metra.
Þá verður spennandi að sjá hvað ólympíufarinn Bergur Ingi Pétursson FH kastar langt á morgun, en hann hefur þrívegis bætt íslandsmetið á þessu ári, síðast í 74,48 metra í lok maí. Þetta er hans síðast mót fyrir Ólympíuleikana.
Sleggjukast kvenna fer fram kl. 12:00 á morgun og sleggjukast karla kl. 13:00 á kastvellinum, ekki missa af því!
Ekki er líklegt að metin falli í öðrum kastgreinum þar sem Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni verður ekki með og ekki er raunhæft að aðrir kastarar bæti metin að þessu sinni.
Ekki er heldur líklegt að íslandsmet falli í hlaupagreinum, enda fá þeir sem möguleika hafa á því líklega ekki mikla keppni í sínum greinum hér heima s.s. Kári Steinn Karlsson, sem bætti metin í 5000 og 10.000m í vor, Björgvin Víkinsson FH, sem bætti metið í 400m grindahlaupi í sl. mánuði, en ekki má þó vanmeta þessa kappa á góðum degi. Þá hljóp Sveinn Elías Elíasson Fjölni á 10,73 sek. á síðasta móti, svo hann vantar einungis 17/100 úr sek. til að jafna íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar á rafmagnstímatöku, 10.56 sek.í 100m hlaupi.
Ekki er heldur líklegt að íslandsmet falli í stökkgreinum um helgina, en Hafdís Sigurðardóttir HSÞ er þó líklegust til að gera það, en hún stökk 6,02 metra um sl. helgi, reyndar í of miklum meðvindi, en íslandsmet Sunnu Gestsdóttur UMSS frá árinu 2003 er 6,30 metrar.
 
Hvað með meistaramótsmetin?
Búast má við að nokkur meistaramótsmet geti fallið um helgina og þau sem eru í mestri hættu að mati sérfræðinga;
* Sleggjukast karla (66,28 metrar, Guðmundur Karlsson FH, 1994)
* Sleggjukast kvenna (47,76 metrar, Kristbjörg Helga Ingvarsdóttir FH, 2007)
* 3000m hlaup kvenna (10:25,16 mín, Íris Anna Skúladóttir Fjölni, 2006)
* 5000m hlaup karla (14:45,16 mín, Kári Steinn Karlsson Breiðabliki, 2007)
* 3000m hindrun karla (9:25,65 mín, Sveinn Margeirsson UMSS, 2001)
* 400m grind karla (52,38 sek., Björgvin Víkingsson FH 2002)
 
Það er útlit fyrir mjög spennandi keppni í flest öllum greinum á meistaramótinu um helgina og veðurspáin fyrir Laugardalinn er góð, svo það er ekkert að vanbúnaði fyrir góð afrek á 82. Meistaramóti Íslands um helgina.
 
Nánari upplýsingar, s.s. tímaseðill, keppendalistar og keppendur í greinum er að finna í mótaforritinu hér á síðunni
www.mot.fri.is
 
 

FRÍ Author