Evrópumeistaramót 16-19 ára hefst á morgun

Evrópumeistaramót 16-19 ára hefst á morgun. Mótið fer fram í Grosseto, Ítalíu dagana 20.-23. júlí.

Ísland sendir þrjá sterka keppendur til keppni í ár en það eru þær Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki sem keppir í sjöþraut, Tiana Ósk Whitworth ÍR sem keppir í 100 m og 200 m hlaupum og Erna Sóley Gunnarsdóttir Aftureldingu sem keppir í kúluvarpi.

Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki bætti sig mikið á Norðurlandamóti unglinga í fjölþrautum sem fram fór fyrr í sumar. Hafnaði hún í 2. sæti í sjöþraut stúlkna 18-19 ára á mótinu og fékk 5.127 stig fyrir árangurinn. Þessi glæsilegi árangur tryggði henni þátttökurétt í sjöþraut á Evrópumeistaramóti 16-19 ára. Verður mjög spennandi að fylgjast með henni á mótinu en hún mun hefja keppni á morgun kl. 8:10 á íslenskum tíma.

Tiana Ósk Whitworth ÍR hefur verið í miklum bætingaham í sumar en hún mun keppa í 100 m og 200 m hlaupum á Evrópumeistaramóti 16-19 ára. Helstu afrek hennar í sumar eru þau að hún náði næstbesta tíma íslenskrar konu í 100 m frá upphafi þegar hún hljóp á tímanum 11,77 sekúndum á Bauhaus Junioren Gala mótinu sem haldið var fyrr í mánuðinum. Þá bætti hún sig í 200 m hlaupi er hún hljóp vegalengdina á 24,53 sekúndum á Smáþjóðaleikunum fyrr í sumar. Hún mun hefja keppni á morgun er hún keppir í undanriðlum í 100 m hlaupi kvenna kl. 8:40 á íslenskum tíma.

 Photo by @sigurdorsson

Erna Sóley Gunnarsdóttir Aftureldingu náði gríðarlega flottri bætingu á Bauhaus Junioren Gala mótinu sem fram fór í Þýskalandi fyrr í mánuðinum. Hún varpaði kúlunni 13,91 m, bætti sig um 54 cm og setti um leið nýtt aldursflokkamet í flokki stúlkna 16-17 ára og 18-19 ára. Með þessum árangri tryggði hún sér þátttökurétt á Evrópumeistaramóti 16-19 ára en hún mun hefja keppni kl. 7:10 á íslenskum tíma á föstudaginn.

Hér er heimasíða mótsins.

Hér má sjá tímaseðil mótsins.

Hér verður live stream frá mótinu.

Við óskum stelpunum góðs gengis!

ÁFRAM ÍSLAND!