Evrópubikarkeppni landsliða

Fyrri keppnisdagur á Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsíþróttum fer fram í dag. Mótið fer fram í Skopje í Norður Makedóníu. Hér verður sýnt beint frá mótinu og hér er hægt að sjá tímaseðil, keppendalista og úrslit.

Ísland keppir í þriðju og neðstu deild af fjórum. Fyrir tveimur árum síðan þá féll Ísland niður um deild ásamt Serbíu. Aðeins eitt lið kemst upp í ár og því má búast við spennandi baráttu milli þessarar tveggja þjóða. Alls mæta þrettán þjóðir með lið í keppnina og því gætu fleiri þjóðir en bara Ísland og Serbía blandað sér í baráttuna um gullið. 

Miðað við keppendalista þá eiga Íslendingar góðan möguleika á verðlaunum í að minnsta kosti sautján greinum. Með bestan skráðan árangur inn í mótið í einstaka greinum eru Ásdís Hjálmsdóttir í spjótkasti, Aníta Hinriksdóttir í 800 og 1500 metra hlaupi, Hulda Þorsteinsdóttir í stangarstökki og Kolbeinn Höður Gunnarsson og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í 200 metra hlaupi. 

Annan besta árangur keppenda eiga Hilmar Örn Jónsson í sleggjukasti, Ívar Kristinn Jasonarson 400 metra grindarhlaupi, Þórdís Eva Steinsdóttir í 400 metra hlaupi, Guðbjörg Jóna og Jóhann Björn Sigurbjörnsson í 100 metrum, Erna Sóley Gunnarsdóttir í kúluvarpi, Birna Kristín Kristjánsdóttir í langstökki og Hlynur Andrésson í 3000 metra hlaupi.

Þriðja bestan árangur eiga Vigdís Jónsdóttir í sleggjukasti, María Rún Gunnlaugsdóttir í 100 metra grindarhlaupi og Dagbjartur Daði Jónsson í spjótkasti.

Þegar á mótið er komið getur hins vegar allt gerst og því engin sem á fyrirfram gefið sæti þrátt fyrir að eiga góðan árangur inn í mótið. Því gætu verðlaun Íslands orðið færri en einnig fleiri. Fyrsta grein á þessum fyrri keppnisdegi er stangarstökk kvenna og hefst hún klukkan 13:45 á íslenskum tíma. Síðasta grein dagsins er 4×100 metra boðhlaup karla og fer það af stað 19:30.

Ísland teflir fram sterku liði í ár en jafnframt ungu og efnilegu. Íslenska liðið samanstendur af 34 keppendum og þar af eru fjórtán að keppa á sínu fyrsta Evrópubikarmóti. Hér fyrir neðan má sjá myndband frá æfingu landsliðsins og Sigurður Arnar Björnsson, verkefnastjóri A-landsliðs, fer yfir mótið um helgina.

Hér má sjá myndir frá mótinu