Erna Sóley með nýtt stúlknamet í kúluvarpi

Í vikunni fór fram innanfélagsmót hjá ÍR þar sem Erna Sóley Gunnarsdóttir bætti stúlknametið í flokki 18-19 ára í kúluvarpi. Erna Sóley varpaði kúlunni lengst 14,98 metra og bætti fyrra metið sem var í eigu Helgu Margrétar Þorsteinsdóttur um 11 cm.
Persónulegt með Ernu Sóleyjar með 4 kg kúlu var 14,16 metrar frá því í febrúar fyrr á þessu ári og er hún því að bæta sig töluvert. Erna hefur hins vegar varpað kúlunni 14,54 metra utanhúss, gerði hún það í sumar.

Erna Sóley er mjög efnileg og keppti hún á HM 19 ára og yngri í sumar þar sem hún lenti í 14. sæti af 28 keppendum. Því verður gaman að fylgjast með henni á komandi keppnistímabili og vonandi að henni takist að brjóta 15 metra múrinn.