Erna Sóley með nýtt Íslandsmet í kúluvarpi

Erna Sóley Gunnarsdóttir setti nýtt Íslandsmet í kúluvarpi innanhúss þegar hún kastaði 16,19 metra. Metið setti hún í Houston, Texas þar sem Erna keppir fyrir Rice University. Fyrra metið átti Ásdís Hjálmsdóttir þegar hún kastaði 15,96 metra árið 2017.

Lengsta kast Ernu Sóleyjar utanhúss er 16,13 metrar og var hún því að kasta sitt lengsta kast allra tíma í gær. Utanhúss á Erna þriðja besta árangur frá upphafi og síðasta sumar þá fékk hún brons á EM U20. Erna er aðeins 19 ára gömul en er þrátt fyrir ungan aldur að stimpla sig inn sem einn besti kúluvarpari Íslands.