Erna Sóley keppti í kúluvarpi á EM 16-19 ára

Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnardóttir Aftureldingu keppti í morgun í kúluvarpi á Evrópumeistaramóti 16-19 ára sem fram fer í Grosseto, Ítalíu, þessa dagana.

Hún varpaði 4 kg. kúlunni 13,22 m og hafnaði í 25. sæti af 28 keppendum. Erna á best 13,91 m í kúluvarpi en þeim árangri náði hún á Bauhaus Junioren Gala mótinu sem fram fór í Þýskalandi fyrr í þessum mánuði.

Erna, sem er fædd árið 2000, er einungis 17 ára og getur því tekið þátt á EM 16-19 aftur eftir 2 ár. Er þetta fyrsta stórmótið sem hún tekur þátt í á sínum ferli.

Þetta er flottur árangur hjá Ernu Sóley og verður mjög spennandi að fylgjast með henni í framtíðinni en hún hefur verið stöðugt að bæta sig að undanförnu.