Erna bætti Íslandsmetið um tæpan meter

Erna Sóley Gunnarsdóttir bætti eigið Íslandsmet í gær um 76 sentímetra með kast upp á 16,95 metra. Hún átti tvö köst yfir gamla metinu en öll hin voru ógild. Metið var slegið á Conference USA Indoor Track & Field Championships í Birmingham, Alabama. Erna keppir fyrir Rice Owls, Rice University í Texas fylki og lenti hennar lið í fjórða sæti í stigakeppni mótsins. 

Hún sigraði keppnina með yfirburðum en næsta kast eftir hennar var 14,78 metra. Með þessu kasti er Erna í níunda sæti á NCAA listanum og á því mjög góðan möguleika á að öðlast þátttökurétt á NCAA meistaramótinu samkvæmt heimasíðu skólans. Erna er með 29. lengsta kast í Evrópu á þessu tímabili og hlaut hún 1017 stig fyrir þetta afrek samkvæmt stigatöflu Alþjóðasambandsins.

Erna er nú þegar komin með lágmark á EM U23 sem fer fram í Bergen, Noregi í sumar en hún fékk brons á EM U20 fyrir tveimur árum. 

Hér má sjá heildarúrslit mótsins.