Enn eitt Íslandsmetið hjá Hlyni

Hlynur bætti eigið Íslandsmet í Birmingham, Hilmar nálægt sínu besta í ár og spennadi vika framundan. 

Hlynur Andrésson bætti eigið Íslandsmet í 10.000 metra hlaupi á laugardag á European 10.000m Cup. Hann kom í mark á 28:36.80 mínútum og varð annar í sínum ráshóp á eftir Ítalanum Pietro Riva sem kom í mark á 28:25.86 mínútur. Fyrra metið var 28:55,47 mínútur sem hann setti í september í fyrra.

Úrslit hlaupsins má finna hér.

Hilmar Örn Jónsson keppti í sleggjukasti í Ungverjalandi á Laugardag. Hann kastaði 73,27 metra en hann er búinn að kasta lengst 74,57 metra í ár. Hann hafnaði í fjórða sæti en það var Bretinn Campbell Taylor frá Bretlandi sem sigraði með kast upp á 78,23 metra.

Úrslit mótsins má finna hér. 

Spennandi vika framundan

Í dag fer fram Vormót Breiðabliks á Kópavogsvelli og eru 77 keppendur skráðir til leiks, tímaseðilin ásamt keppendalista er að finna hér. Þetta er með síðustu mótum sem íþróttamenn geta nýtt til að sýna árangur fyrir valið á Evrópubikarinn sem fer fram dagana 19.-20. júní í Stara Zagora, Búlgaríu. Lokaskráning á Evrópubikarinn er 11.júní og því þurfa íþróttamenn að sýna árangur í síðasta lagi 10.júní.

Sindri Hrafn Guðmundsson og Dagbjartur Daði Jónsson keppa í spjótkasti á Bandaríska Háskólameistaramótinu í Eugene, Oregon á miðvikudag. Sindri kastaði lengst allra í forkeppninni, 79,83 metra sem er jafnframt lengsta kastið í NCAA í ár. Dagbjartur var annar með 78,53 metra. Þeir eru því sigurstranglegir fyrir úrslitakeppnina. Keppni hefst klukkan 01:15 á íslenskum tíma.

Um helgina fer svo fram Meistaramót Íslands á Akureyri þar sem fremsta frjálsíþróttafólk landsins keppir sín á milli. Tímaseðil má finna hér.