Fjórir Íslendingar kepptu á EM öldunga innanhúss sem fram fór dagana 20.-27. febrúar í Braga í Portúgal.
Fríða Rún Þórðardóttir landaði þriðja sætinu í 8 km víðavangshlaupi í W50 ára flokki og kom í mark á tímanum 33:12 mín. Það var Ítalinn Carla Primo sem kom fyrst í mark á tímanum 29:51 mín. Fríða var í 11. sæti af 48 konum á aldrinum 35-54 ára.
Fríða keppti einnig í 3000 metra hlaupi og 1500 metra hlaupi og hafnaði í fjórða sæti í báðum greinum. Í 3000 metra hlaupi kom Fríða í mark á tímanum 11:06,98 mín. sem var um fjórtán sekúndur frá þriðja sætinu. Í 1500 metra hlaupi kom Fríða í mark á tímanum 5:06,75 mín. sem er hársbreidd frá öldungameti hennar í greininni sem er 5:06,02 mín.
Hafsteinn Óskarsson sigraði í sínum riðli undankeppni í 800 metra hlaupi í M60 á tímanum 2:24,76 mín. og komst þar með í úrslit. Hann varð sjötti í úrslitunum á nýju öldungameti, 2:21,85 mín.
Ívar Trausti Jósafatsson keppti einnig í sama flokki og varð 5. i sínum riðli á 2:31,66 mín.
Hafsteinn tók einnig þátt í 400 metra hlaupi og var þar þriðji í sínum riðli í undankeppninni og kom í mark á tímanum 61,33 sek og komst þar með í úrslit. Hafsteinn náði síðan fjórða sætinu í úrslitum á tímanum 61,13 sek. Öldungametið sem hann setti fyrir tveimur árum er 60,67 sek.
Ívar Trausti keppti svo í 3000 metra hlaupi og hafnaði í 12. sæti á tímanum 10:50,07 mín. Ívar endaði mótið á keppni í 1500 metra hlaupi og hafnaði í 20. sæti og kom í mark á 5:05,20 mín.
Skúli Guðbjarnarson keppti í 60 metra hlaupi í flokki M65 og kom í mark á tímanum 14,75 sek. en þetta var frumraun hans í keppni í eldri aldursflokkum.
Heildarúrslit mótsins má finna hér.