EM fatlaðra í frjálsum íþróttum

Sex íslenskir keppendur munu keppa á EM fatlaðra sem fer fram í Berlín 20. til 26. ágúst. Fyrstur Íslendinga til að hefja keppni er Helgi Sveinsson sem keppir í spjótkasti í flokki F63 hreyfihamlaðir. Fyrsta stórmót Helga var EM 2012. Síðan þá hefur hann tvívegis keppt á Paralympics, 2012 og 2016.  Helgi er heimsmethafi í greininni og meistari síðustu tveggja móta. Helgi hefur keppni klukkan 15:32 á íslenskum tíma.

Á sama tíma keppir Hulda Sigurjónsdóttir í kúluvarpi í flokki F20 þroskahamlaðir. Hulda á tvö stórmót að baki, EM 2012 og EM 2016. Einnig keppir Jón Margeir Sverrisson í 400 metra hlaupi í flokki T20 þroskahamlaðir. Þetta er fyrsta stórmót hans á ferlinum í frjálsum íþróttum. Jón Margeir er margverðlaunaður sundmaður og er fyrstur íþróttamanna úr röðum fatlaðra síðan Geir Sverrisson til þess að keppa á stórmóti í bæði frjálsum og sundi.

Seinna í vikunni keppir Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir í 100 metra hlaupi, 200 metra hlaupi, 400 metra hlaupi og í langstökki. Patrekur Andrés Axelsson keppir í 100 og 200 metra hlaupi ásamt aðstoðarmanni sínum Andra Snæ Ólafssyni Lukeš. Stefanía Daney Guðmundsdóttir keppir svo í langstökki.

Sýnt verður beint frá mótinu hér

Öll úrslit mótsins er að finna hér