Ellefu verðlaun og Ísland í öðru sæti í Skopje

Fyrri keppnisdegi er nú lokið hér í Skopje, Norður Makedóníu þar sem Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsíþróttum fer fram um helgina. Ísland hlaut í heildina ellefu verðlaun, fjögur gull, sex silfur og eitt brons og er í öðru sæti stigakeppninnar með 222 stig. Aðeins átta stigum á eftir Serbíu sem eru 230 stig.

Fyrstu verðlaun dagsins komu í fyrstu tveimur greinunum. Hilmar Örn Jónssson varð annar í sleggjukasti þegar hann kastaði 72,43 metra. Hulda Þorsteinsdóttir gerði frábærlega í stangarstökkinu og sigraði með miklum yfirburðum. Hún stökk hæst 3,60 metra, tæplega 40 sentimetrum hærra en sú sem varð önnur. Hún er nýfarin af stað eftir erfið meiðsli og var að keppa á stöng sem hún fékk lánaða þar sem stangir íslenska liðsins skiluðu sér ekki. Það gerir sigur hennar ennþá magnaðari.

Í 400 metra grindarhlaupi fékk Ívar Kristinn Jasonarson silfurverðlaun. Hann kom í mark á 52,56 sekúndum. Í kvennahlaupinu stefndi í baráttu um gullið hjá Glódísi Eddu Þuríðardóttur. Hún var önnur og saxaði á þá sem leiddi hlaupið þegar hún datt á næst síðustu grindinni. Samt sem áður frábært hlaup hjá Glódísi sem var aðeins að keppa í greininni í annað skiptið. Fyrsta hlaupið hennar var í júlí og varð hún Íslandsmeistari í fullorðinsflokki í því hlaupi.

Hlaupardrottningarnar Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Aníta Hinriksdóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir fengu allar silfur. Í 100 metra hlaupinu kom Guðbjörg Jóna í mark á 11,58 sekúndum, Aníta hljóp 800 metrana á 2:06,16 mínútum og Þórdís Eva 400 metrana á 56,33 sekúndum.

Ólympíufarin og Íslandsmethafin Ásdís Hjálmsdóttir sýndi að hún sé í heimsklassa í sinni grein og sigraði í spjótkastinu. Hún kastaði lengst 57,04 metra. Hlynur Andrésson fékk svo silfur í 1500 metra hlaupi þegar hann kom í mark á 3:49,29 mínútum. Andrea Kolbeinsdóttir fékk bronsverðlaun þegar hún varð þriðja í 3000 metra hlaupi á 9:47,66 mínútum.

Þessi fyrri keppnisdagur endaði svo frábærlega með tveimur gullum í 4×100 metra boðhlaupi. Kvennasveitina skipuðu Andrea Torfadóttir, Dóróthea Jóhannesdóttir, Agnes Kristjánsdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Tími þeirra var 45,81 sekúnda, aðeins 2/100 úr sekúndu á undan sveit Serbíu. Guðbjörg átti frábæran endasprett þar sem hún vann upp gott forskot Serbíu og kom fyrst í mark. Karlasveitina skipuðu Juan Ramon Borges, Jóhann Björn Sigurbjörnsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ari Bragi Kárason. Þeir sigruðu með miklum yfirburðum á tímanum 40,44 sekúndum. Það er aðeins 4/100 úr sekúndu frá Íslandsmetinu.

Irma Gunnarsdóttir náði einnig frábærum árangri í þrístökkinu. Hún stökk 12,42 metra sem er aldursflokkamet 20-22 ára. Hún var að keppa við sterka keppendur í dag og varð í sjötta sæti.

Öll úrslit dagsins og tímaseðil fyrir morgundaginn má sjá hér.
Hér má sjá myndir frá mótinu