Elísabet og Kristján í úrslit í Bakú

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram þessa dagana í Bakú í Aserbaídsjan. Í frjálsíþróttakeppni leikanna eru sex íslenskir keppendur. Birna Kristín Kristjánsdóttir og Dagur Fannar Einarsson keppa í langstökki, Elísabet Rut Rúnarsdóttir í sleggjukasti, Eva María Baldursdóttir og Kristján Viggó Sigfinnsson keppa í hástökki og Ólíver Máni Samúelsson í 100 metra hlaupi.

Þau hafa nú öll keppt í undankeppni í sinni greini og eru Elísabet Rut og Krisján Viggó komin áfram í úrslit. Elísabet Rut kastaði lengst 64,99 metra og átti sjöunda lengsta kastið inn í úrslitin. Sú sem sigraði í undankeppninni kastaði 70,52 metra en persónulegt met Elísabetar í greininni er 71,19 metrar. Úrslitin í sleggjukastinu fara fram síðar í dag. Kristján Viggó stökk hæst 1,99 metra sem er jafn hátt og ellefu af þeim tólf keppendum sem keppa til úrslita. Úrslitin fara fram á morgun

Ólíver Máni átti frábært 100 metra hlaup þegar hann kom í mark á 11,06 sekúndum sem er hans besti tími í greininni. Fyrir átti hann best 11,08 sekúndur frá því á Meistaramóti Íslands fyrir stuttu síðan. Átta keppendur kepptu til úrslita í greininni og átti Ólvíer tíunda besta tímann og því rétt svo missti hann af sæti í úrslitunum.

Birna Kristín fékk þrjú stökk í undankeppni langstökksins og gerði þau því miður öll ógild. Til þess að komast inn í úrslit hefði Birna þurft að stökkva lengra en 5,46 metra sem hún hefði vel getað gert þar sem besti árangur hennar í ár er 6,12 metrar. Birna átti fjórða besta árangur keppenda inn í mótið og því hefði hún vel getað blandað sér í baráttuna um verðlaunasæti.

Lengsta stökk Dags Fannars í undankeppni langstökksins var 6,24 metrar. Hann varð átjándi en tólf efstu kepptu til úrslita. Lakasti árangurinn inn í úrslit var 6,83 metrar og hefði Dagur þurft að bæta sig töluvert til þess að tryggja sér sæti þar. Hans besti árangur er 6,49 metrar.

Eva María keppti í hástökki í morgun. Hún fór yfir 1,72 metra en felldi 1,75 metra naumlega. Niðurstaða undankeppninnar er sú að ellefu stúlkur stukku yfir 1,75 metra og ein komst áfram með 1,72 metra en í færri tilraunum en Eva María.