Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) tryggði sér sæti í úrslitum í sleggjukasti á EM U23 í Finnlandi í dag. Elísabet varð fjórða í sínum kasthópi, áttunda í heildina, með kasti upp á 63,66m. Það eru tólf efstu sætin sem komast á áfram í úrslitakeppnina sem fara fram á morgun, föstudag klukkan 16:45.
Það mátti litlu muna að við værum með tvo Íslendinga í úrslitum en Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) var í fjórtanda sæti, aðeins hálfum meter frá úrslita sætinu. Guðrún kastaði lengst 62,21m.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) varð fjórða í sínum riðli, aðeins einu sæti frá því að komast í undanúrslit en fyrstu þrjár fara áfram. Hún kom í mark á tímanum 11,92 sek. en hún var óheppin með vind, -1,3 m/s. og dugar tíminn því miður ekki áfram í undanúrslitin.
Guðbjörg keppir í undanrásum í 200m hlaupi á laugardag.
Úrslit frá mótinu má finna hér.