Þær Elísabet Rut Rúnarsdóttir (ÍR) og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) kepptu í sleggjukasti á Bandaríska Háskólameistaramótinu (NCAA Outdoor Championships) í Hayward Field í Eugene, Origon í gær.
Elísabet Rut sigraði sleggjukast kvenna og bætti eigið Íslandsmet í þriðja sinn á tímabilinu er hún kastaði sleggjunni 70,47 m. í þriðju umferð sem var hennar lengsta kast í dag. Fyrra met hennar var 70,33 m. frá því í lok mars á Bobcat invitational.
“Ég er ótrúlega sátt með hvernig þetta mót fór og að hafa endað tímabilið hérna í Bandaríkjunum svona vel. Þetta var draumurinn allt tímabilið að geta endað á sigri á þessu móti og ná bætingu ofan á það er ennþá betra. Þetta ætti líka að vera nokkuð góð upphitun fyrir EM sem er núna á sunnudaginn og markmiðið auðvitað að taka þetta með mér inn í undanúrslitin,” sagði Elísabet Rut eftir keppni.
Guðrún Karítas hafnaði í fimmta sæti með kast upp á 69,12 m. sem var hennar síðasta kast í dag. Hún fær titilinn “1st Team All-American”. Þetta er þriðja lengsta kast hennar á ferlinum en met hennar er 69,76 m. sem hún kastaði á Bobcat Invitational í lok mars á þessu ári. Með því kasti bætti hún Íslandsmet Elísabetar um 65 cm. og átti Guðrún metið í nokkrar mínútur áður en Elísabet endurheimti Íslandsmet sitt í sjöttu umferð.
“Ekki alveg minn besti dagur en skemmtileg og hörð keppni. Þetta tímabil er búið að koma mér mikið á óvart og flott að enda það á 5.sæti á þessu móti. Mjög spennt fyrir EM, var ekki að búast við því að það væri möguleiki fyrir mig þetta árið svo það er frábært að fá tækifæri til að upplifa og taka þátt á svona stóru móti og sjá hvað maður getur gert,” sagði Guðrún Karítas eftir keppni.
Myndskeið af Íslandsmeti Elísabetar: