Eitt Íslandsmet og tvö aldursflokkamet féllu um helgina

Hlynur með enn eitt Íslandsmetið, tvö aldursflokkamet og tíu mótsmet féllu á Selfossi um helgina og flottur árangur í Mannheim. 

Hlynur Andrésson setti í gær Íslandsmet í 5000 metra hlaupi á KBC Nacht mótinu í Heusden-Zolder, Belgíu! Hann kom í mark á 13:45, 20 en fyrra metið var 13:45,66 mínútur sem Baldvin Þór setti í mars. Hlynur á nú Íslandsmeti í sjö hlaupagreinum utanhúss.

HSK/Selfoss stöðvaði sautján ára sigurgöngu ÍR-inga

Það var lið HSK/Selfoss sem hlutu flest stig í heildarstigakeppni félagsliða í dag á Meistaramóti Íslands 15-22 ára og hlutu 421,5 stig. ÍR-ingar voru í öðru sæti með 379 stig og FH-ingar í því þriðja með 270 stig. Það voru sett tíu mótsmet og tvö aldursflokkamet á mótinu.

Fjögur mótsmet voru sett í grindahlaupi í dag. Þær Glódís Edda Þuríðardóttir úr KFA og Júlía Kristín Jóhannesdóttir úr Breiðabliki settu báðar aldursflokkamet í 100 metra grindahlaupi. Glódís setti met í flokki 18-19 ára þegar hún kom í mark á 14,00 sekúndum sem er einnig persónuleg bæting hjá henni, Júlía setti met í 16-17 ára þegar hún kom í mark á tímanum 14,28 sekúndur. Þess má geta að þær eru báðar á yngra ári í flokkunum sínum. Júlía Kristín fékk fimm gullverðlaun og fjögur silfurverðlaun um helgina. 

Birnir Vagn Finnsson úr UFA og Markús Birgisson úr Breiðabliki settu met í 110 metra grindahlaup. Birnir setti met í flokki 18-19 ára þegar hann kom í mark á tímanum 15,36 sekúndum. Markús setti met í flokki 16-17 ára pilta þegar hann kom í mark á 15,97 sekúndum.

Tvö mótsmet féllu í hástökki í dag. Elías Óli Hilmarsson úr FH setti met í flokki 16-17 ára pilta þegar hann stökk 1,90 metra. Helga Þóra Sigurjónsdóttir úr Fjölni setti met í flokki 20-22 ára stúlkna þegar hún stökk 1,71 metra.

 

Björg Gunnlaugsdóttir úr UÍA setti met í 600 metra hlaupi í flokki 15 ára stúlkna þegar hún kom í mark á tímanum 1:48,72 sekúndur. Róbert Mackay úr UFA setti met í 200 metra hlaupi í flokki 15 ára pilta þegar hann kom í mark á tímanum 23,73 sekúndur. 

Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR setti mótsmet í flokki 20-22 ára stúlkna þegar hún kastaði 14,94 metra sem er töluvert frá Íslandsmeti hennar í greininni. Næst á dagskrá hjá Ernu er EM U23 sem fram fer í Talinn í næstu viku. Bergur Sigurlinni Sigurðsson úr ÍR setti mótsmet í langstökki í flokki 16-17 ára pilta þegar hann stökk 6,50 metra.

 

Flottur árangur í Mannheim

Þær Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Birna Kristín Kristjánsdóttir náðu frábærum árangri á Bauhaus Junioren-Galan sem fór fram í Mannheim, Þýskalandi um helgina. Elísabet náði þriðja sæti í sleggjukasti þegar hún kastaði 61,48 metra.  Næst á dagskrá hjá Elísabetu er EM U20 eftir rúmar tvær vikur. Birna Kristín Kristjánsdóttir hafnaði í fimmta sæti í langstökki með stökk upp á 6,05 metra.