Einar Vilhjálmsson í Heiðurshöll ÍSÍ

Einar Vilhjálmsson var í gær tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ. Afhending viðurkenningarinnar fór fram samhliða því þegar úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2021 voru tilkynnt. Einar var kjörinn Íþróttamaður ársins þrisvar sinnum, árin 1983, 1985 og 1988. Faðir hans, Vilhjálmur Einarsson, var fyrstur allra til að vera útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ. 

Við erum stolt af okkar fólki. Þessu einstaklega glæsilega frjálsíþróttafólki sem ÍSÍ hefur sýnt svo mikinn heiður og virðingu. Við horfum til þessa fólks með aðdáun og stolti. Megi þau verða efnilegu fólki á öllum aldri hvatning til að hlaupa, stökkva og kasta, hraðar, hærra og lengra! Eins og Einar Vilhjálmsson benti á í gær þá felst fegurð íþróttarinnar okkar einmitt í þessu, að allir geta bætt sig. Viljinn og löngunin er allt sem þarf!

Freyr Ólafsson, Formaður FRÍ

Einar er fæddur 1. júní árið 1960. Íslandsmet hans í spjótkasti er 86,80 metrar, sett 30. ágúst 1992. Einar hlaut gullverðlaun á Heimsleikunum í Helsinki árið 1988. Hann vann til 10 gullverðlauna á Grand Prix stórmótaröðum IAAF (WA eða World Athletics í dag) og fjölda silfur og bronsverðlauna á árinum 1985, 1987, 1989 og 1991. Keppnisferill Einars spannar um 220 mót í um 22 löndum og hafnaði hann á verðlaunapalli á um 200 þeirra. Einar komst fyrst á heimslistann yfir bestu spjótkastara heims árið 1983 og síðast árið 1992. Hann varð sjötti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og kom Íslandi á blað í frjálsíþróttum með eitt stig. Á keppnisferli Einars var spjótum breytt þrisvar sinnum. Einar var einn þriggja spjótkastara í heiminum sem náði að komast á heimslistann með öllum spjótunum. Hann setti á ferlinum fjölda meta, bandarísk háskólamet, Norðurlandamet og Evrópumeistaramótsmet. 

Það eru nú þegar átta frjálsíþróttamenn í heiðurshöllinni:

  • Vilhjálmur Einarsson, 28. janúar 2012
  • Vala Flosadóttir, 29. desember 2012
  • Gunnar Huseby, 18. apríl 2015
  • Torfi Bryngeirsson, 18. apríl 2015
  • Jón Kaldal, 6. maí 2017
  • Hreinn Halldórsson, 29. desember 2018
  • Örn Clausen, 09. október 2021
  • Haukur Clausen, 09. október 2021

Myndir/Mummi Lú og ÍSÍ.

  • Vilhjálmur Einarsson