Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) náði frábærum árangri á HM innanhúss í dag. Hún varpaði kúlunni 17,07 m. í fyrsta kasti sem var hennar besti árangur í dag en þetta er einnig hennar besti árangur á stórmóti. Hún kastaði 17,03 m. í öðru kasti og 16,71 m. í því þriðja. Hún hafnaði í 14 sæti sem er glæsilegur árangur.
“Mér líður bara mjög vel og er ánægð með hvað ég var andlega sterk í dag. Ég kastaði 17,07 m. þannig ég get ekki verið annað en sátt þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ég fer yfir 17 m. á stórmóti. Ég veit að ég hefði getað gert meira en yfir allt er ég ánægð með reynsluna.
Ég er mjög ánægð að fá tækifæri til að keppa hérna, góð reynsla og ég var kláralega betur stemmd í dag en ég var á HM í fyrra. Síðast var ég miklu stressaðari, fannst ég betur ná að stjórna þessu núna og gat neglt á það.
Það eru færri á HM innanhúss sem þýðir að ég var að keppa við þær allra bestu sem er geggjað, lengri bið milli kasta en yfir allt var þetta geggjað!” Sagði Erna eftir keppni.
Heildarúrslitin má finna hér.