Degi eitt á MÍ lokið

Penni

2

min lestur

Deila

Degi eitt á MÍ lokið

Fyrsta degi á 98. Meistaramóti Íslands er lokið. Í dag var keppt í 800m hlaupi karla og kvenna, 3000m hindrunarhlaupi karla og kvenna og 4x100m boðhlaupi karla og kvenna.

Fjölnir Brynjarsson (FH) sigraði í 800m hlaupi karla á tímanum 2:05,47 mín. og á best 1:54,26 mín. utanhúss en 1:53,14 mín. innanhúss, bæði frá því í maí á þessu ári. Í örðu sæti var Kjartan Óli Ágústsson (Fjölnir) á tímanum 2:07,79 mín. og í þriðja sæti var Illugi Gunnarsson (ÍR) á tímanum 2:08,57 mín.

“Það var rosalega mikill vindur í dag, enginn að fara að bæta sig í svona veðri en bara fínn fýlingur. Ég stefni á að taka 1500m á morgun, það verður vonandi minni vindur á okkur þá, sagði Fjölnir eftir keppni en hægt er að sjá viðtal við hann hér.

FH-ingurinn Embla Margrét Hreimsdóttir sigraði 800m hlaupið kvenna megin er hún hljóp á tímanum 2:21,19 mín. Hennar besti árangur í greininni er 2:18,53 mín. utanhúss frá því í fyrra en 2:13,06 mín. innanhúss síðan í maí. Guðný Lára Bjarnadóttir (Fjölnir) var ekki langt á eftir en hún kom í mark á tímanum 2:21,87 mín. Í þriðja sæti var Helga Lilja Maack (ÍR) á tímanum 2:30,20 mín.

“Það gekk bara mjög vel en vindurinn tók svolítið úr manni. Ég ætla að keppa í 1500m á morgun og mögulega í boðhlaupi á sunnudaginn,” sagði Embla Margrét eftir keppni en hægt er að sjá viðtal við hana hér.

Það var Arnar Pétursson (Breiðablik) sem sigraði í 3000m hindrunarhlaupi karla. Hann hljóp á tímanum 9:58,12 mín. Hans besti árangur í greininni er 9:18,59 mín. frá árinu 2019. Valur Elli Valsson (FH) var í öðru sæti á tímanum 10:53,41 mín. en þeir voru aðeins tveir að keppa.

“Að hlaupa í þessum aðstæðum er ákveðin áskorun en þetta er Íslandsmeistaratitill númer 60 og ég er mjög stoltur að hafa náð því,” segir Arnar Pétursson eftir keppni en hægt er að sjá viðtal við hann hér.

Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) sigraði í 3000m hindrunarhlaupi kvenna á tímanum 10:46,36 mín. Sjálf á hún Íslandsmetið í greininni, 10:08,85 mín. og er það frá því á Evrópubikar í fyrra. Í öðru sæti var Íris Anna Skúladóttir (FH) en hún hljóp á tímanum 11:30,69 mín. og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (UFA) í því þriðja á tímanum 12:17,74 mín.

“Ég ákvað að gera það sama og í fyrra, fara í 1500m á morgun og 5000m á sunnudaginn. Nýta helgina. Núna er maður búinn að vera í tvær til þrjár vikur að fókusa á brautina en í næstu viku taka utanvegahlaupin við aftur,” sagði Andrea eftir keppni en hægt er að sjá viðtal við hana hér.

Í 4x100m boðhlaupi karla var það sveit ÍR sem sigraði á tímanum 44,98 sek., í öðru sæti var sveit FH á tímanum 45,21 sek. og í þriðja sæti var sveit Fjölnis á tímanum 45,31 sek. Í 4x100m boðhlaupi kvenna var það sveit FH sem sigraði á tímanum 49,20 sek. í öðru sæti var sveit ÍR á 51,34 sek. og í þriðja sæti var B-sveit Fjölnis á tímanum 55,85 sek.

Heildarúrslit mótsins eru að finna hér.

Myndir frá deginum eru að finna hér.

Mótið heldur áfram á morgun og hefst keppni kl. 12:00. Tímaseðilinn er að finna hér.

Penni

2

min lestur

Deila

Degi eitt á MÍ lokið

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit