Daníel Ingi Egilsson (FH) hefur lokið keppni á sínu fyrsta stórmóti í fullorðinsflokki. Fyrsta stökk hans var 7,61 m., annað stökk hans var 7,92 m. sem var hans lengsta stökk í dag og þriðja stökkið var 7,63 m.
Til þess að tryggja sér sæti í úrslitum þurfti að stökkva 8,00 m. eða vera meðal tólf efstu. Daníel hafnaði í sjötta sæti í sínum stökkhópi og í fjórtánda sæti í heildina, aðeins þremur cm. frá úrslitum. Met Daníels er 8,21 m. en þar á undan átti hann 7,92 m. sem er jafn langt og stökk hans í dag.
“Frábær upplifun og algjör forréttindi að fá að vera hérna, vonandi er þetta ekki mitt síðasta stórmót. Ég er mjög sáttur enda var þetta hörð keppni. Auðvitað sorglegt hvað maður er nálægt því að komast í úrslit en ég get ekki verið svekktur þar sem að þetta var bara fínt stökk hjá mér.” sagði Daníel eftir keppni í dag.
Hér má sjá viðtalið við Daníel í heild sinni.
Heildarúrslit stökkhópsins má finna hér.
Framundan hjá Daníel er Smáþjóðameistaramótið sem fram fer í Gíbraltar þann 22. júní og Meistaramót Íslands í lok júní.