Dagbjartur þriðji inn í úrslit

Tveir íslenskir keppendur voru á ferðinni á fyrsta degi Evrópumeistarmóts yngri en 23 ára í frjálsíþróttum í Svíþjóð í dag. Dagbjartur Daði Jónsson tryggði sig öruggglega inn í úrslitin í spjótkasti. Kasta þurfti 76 metra til þess að tryggja sig beint inn í úrslitin eða enda á meðal tólf efstu af tveimur undanriðlum. Dagbjartur kastaði 76,85 metra í sínu öðru kasti og átti hann þriðja lengsta kast dagsins af átján keppendum. Úrslitin í spjótkastinu fara fram á laugardaginn.

Fyrri dagur sjöþrautarinnar fór fram í dag þar sem Irma Gunnarsdóttir er á meðal keppenda. Irma er með 2880 stig eftir fjórar greinar og er í 23. sæti af þeim 23 keppendum sem eftir eru en 26 keppendur hófu keppni. Úrslit einstakra greina hjá Irmu:
100 metrar grindarhlaup: 15,41s, -1,9m/s (887 stig)
Hástökk: 1,52m (644 stig)
Kúluvarp: 12,25m (678 stig)
200 metra hlaup : 26,30s, -0,7 (771 stig).

Á morgun hefst sjöþrautin með langstökki klukkan 8:25 í fyrramálið. Þar á eftir er spjótkast klukkan 10:05 og svo 800m klukkan 16:05. Allar tímasetningar eru á íslenskum tíma.

Öll úrslit dagsins og tímaseðil fyrir morgundaginn má sjá hér.