Dagbjartur sjötti á EM U23

Dagbjartur Daði Jónsson varð í dag í sjötta sæti í spjótkasti á Evrópumeistaramóti undir 23 ára í Svíþjóð í dag. Lengsta kast hans kom í fyrstu umferð og var það 76,30 metrar sem er tveimur metrum frá hans besta árangri. Dagbjartur varð þriðji í undankeppni spjótkastsins sem fram fór á fimmtudaginn. Þar kastaði hann 76,85 metra.

Sigurkastið í spjótinu var 84,97 metrar og hefði Dagbjartur þurft að kasta lengra en 80,31 metra til þess að komast á pall. Flottur árangur hjá Dagbjarti sem átti nokkur góð köst og er að stimpla sig inn meðal fremstu spjótkastara Evrópu í sínum aldursflokki.

Í gær keppti Andrea Kolbeinsdóttir í 10.000 metra hlaupi. Andrea kom í mark á tímanum 36:04,22 mínútum og varð í tuttugasta sæti. Andrea á aldursflokkamet 20-22 ára í greininni og er það 35:25,38 mínútur. Andrea hafði einnig náð lágmarki á mótið í 3.000 metra hindrunarhlaupi en keppir ekki í þeirri grein á mótinu.

Í gær fór einnig fram seinni dagur sjöþrautarinnar þar sem Irma Gunnarsdóttir var á meðal keppenda. Henni tókst ekki að klára þrautina og hætti þegar fimm greinar voru búnar.