Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) lauk keppni í spjótkasti á sínu fyrsta stórmóti í fullorðinsflokki í dag. Hann kastaði 70,44 m. í fyrsta kasti sem var hans lengsta kast. Gerði ógilt í öðru og kastaði 68,09 m. í því þriðja.
Til þess að tryggja sér sæti í úrslitum þurfti að kasta 82,00 m. eða vera meðal tólf efstu. Dagbjartur hafnaði í fjórtánda sæti í sínum kasthópi og 26. sæti í heildina. Hann var í 26. sæti á stigalista fyrir EM og náði að halda því sæti að móti loknu. Met Dagbjarts er 79,57 m. frá árinu 2021.
“Mér hefur liðið betur eftir keppni, ekki minn dagur í dag því miður. Það var samt mjög góð upplifun að fá að keppa á mínu fyrsta stórmóti og þetta fer bara í reynslubankann. Næst er það líklegast bara MÍ á Akureyri eftir 2 vikur, það verður algjör veisla,” sagði Dagbjartur eftir keppni.
Heildarúrslit kasthópsins má finna hér.