Clausen bræður útnefndir í Heiðurshöll ÍSÍ

Um helgina voru tvíburabræðurnir og frjálsíþróttamennirnir Örn Clausen og Haukur Clausen útnefndir af framkvæmdastjórn ÍSÍ í Heiðurshöll ÍSÍ. Þeir eru 21. og 22. einstaklingurinn sem hljóta útnefningu.

Þeir voru einna fremstir íslenskra íþróttamanna um 1950 og áttu frábæran feril þrátt fyrir að vera of stuttur að flestra mati. Bræðurnir kepptu fyrir ÍR og tóku þátt í mörgum landsliðsverkefnum.

Ólympíuleikar í London 1948

Þeir tóku þátt á Ólympíuleikunum árið 1948 sem fram fóru í London, aðeins nítján ára að aldri. Örn varð tólfti í tugþraut og Haukur þrettándi í 100 metra hlaupi. 

EM í Brussel 1950

Þeir náðu glæsilegum árangri á Evrópumeistaramótinu í Brussel árið 1950. Örn varð annar í tugþraut á nýju Íslandsmeti og hlaut 6819 stig. Haukur komst í úrslit í 100 metra hlaupi á tímanum 11,0 sekúndur. Í úrslitunum varð hann fimmti á tímanum 10,8 sekúndur.

Norðurlandameistaramót og Norðurlandamet

Árið 1947 verð Haukur Norðurlandameistari í 200 metra hlaupi á nýju Íslandsmeti 21,9 sekúndur, aðeins 18 ára gamall. Tveimur árum síðar varð Örn Norðurlandameistari í tugþraut í Stokkhólmi.

Sumarið 1950 setti Haukur Norðurlandamet í 200 metra hlaupi, 21,3 sek. Það var besti tími ársins í Evrópu og stóð Norðurlandametið í sjö ár en það var einnig Íslandsmet sem stóð í 27 ár. Örn setti norðurlandamet í tugþraut árið 1951 sem var næstbesti tugþrautaárangur í heimi það ár.