Bjarki er í 4. sæti eftir fyrri dag – Einar Daði er úr leik eftir þrjú ógild stökk

Nú er lokið keppni í tugþaut á NM unglinga á Kópavogsvelli. Einar Daði Lárusson fór vel af stað í tugþrautinni í flokki 18-19 ára og sigraði í fyrstu grein dagsins, 100m hlaupi á 11,39 sek., en í annari grein, langstökki, gerði hann öll þrjú stökk sín ógild og er því úr leik í keppni efstu sæti á þessum aldursflokki, en Einar Daði átti góða möguleika á að vera í baráttu um verlaunasæti og jafnvel sigur í þessum aldursflokki og voru þetta því mikil vonbrigði fyrir hann, enda er hann í mjög góðu formi og stefndi að því að ná lágmarki fyrir Evrópumeistaramót unglinga 19 ára og yngri um helgina.
Bjarki Gíslason hefur staðið sig mjög vel í dag í sama aldursflokki í dag, en hann er í 4.sæti eftir fyrri daginn og er í baráttu um verðlaunasæti í keppninni með 3334 stig. Bjarki hljóp 100m á 11,66 sek, stökk 6,26m í langstökki, varpaði kúlu 11,22m, stökk 1,79m í hástökki og hljóp að lokum 400m á sínum besta tíma, 50,47 sek.
Fabian Rosenquist frá Svíþjóð hefur forystu með 3725 stig og Juha Sola frá Finnlandi er í öðru sæti með 3653 stig.
 
Í flokki 17 ára og yngri eru okkar keppendur í sjötta til áttunda sæti eftir fyrri dag.
Ingi Rúnar Kristinsson er í 6. sæti með 2842 stig, Gísli Brynjarsson er í 7. sæti með 2777 stig og Kristján Viktor Kristinsson er í 8. sæti með 2677 stig. Martin Roe frá Noregi leiðir í þessum flokki með 3484 stig og Oscar Törnros er annar með 3351 stig.
 
Í flokki 20-22 ára er Haraldur Einarsson í sjötta sæti með 2871 stig. David Kallebäck er með forystu, er komin með 3819 stig og Juhani Pyhäranta Finnlandi er annar með 3587 stig.
 
Keppni á seinni degi hefst kl. 10:00 í fyrramálið með 110m grindahlaupi í tugþraut og langstökki í sjöþraut. Samkvæmt tímaseðli á sjöþraut kvenna að ljúka kl. 14:45 og í tugþraut kl. 17:05.
 
Sjá heildarúrslit á: www.mot.fri.is (NJCCE U23).

FRÍ Author