Birna Kristín með aldursflokkamet í Þýskalandi

Síðari dagur Bauhaus Junioren Gala fór fram í Þýskalandi í dag og hafa allir íslensku keppendurnir lokið keppni. Okkar fólk átti góðan dag og náði flottum árangri sem og fyrri daginn. Eitt aldursflokkamet féll, tvö persónuleg met og ein íslensk silfurverðlaun.

Birna Kristín Kristjánsdóttir bætti eigið aldursflokkamet 16-17 ára í langstökki. Birna stökk 6,12 metra en fyrir átti hún 6,10 metra frá því á Meistaramóti Íslands síðasta sumar. Birna átti nokkur góð stökk og fór tvisvar yfir sex metra. Hún endaði í tíunda sæti í keppninni.

Birna Kristín

Í 4×100 metra boðhlaupi keppti sama sveit og í gær. Birna Kristín Kristjánsdóttir, Þórdís Eva Steinsdóttir, Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Í gær settu þær aldursflokkamet með tímanum 45,75 sekúndum en í dag hlupu þær örlítið hægar. Tími þeirra var 45,83 sekúndur og urðu þær í sjöunda sæti.

Í 200 metra hlaupi þá bættu Hinrik Snær Steinsson og Tiana Ósk sinn besta árangur. Hinrik hljóp á 22,39 sekúndum, varð fimmti í sínum riðli og 25. í heildina. Tiana Ósk hljóp á 23,79 sekúndum, varð önnur í sínum riðli og fimmta í heildina.

Besta árangri dagsins náði Guðbjörg Jóna í 200 metra hlaupi. Guðbjörg sem er Íslandsmethafi greinarinnar hljóp á 23,51 sekúndu og varð í öðru sæti. Guðbjörg er nýbúin að bæta Íslandsmet sitt en hún gerði það fyrir tveim vikum þegar hún hljóp á 23,45 sekúndum.

Þórdís Eva keppti einnig í 200 metra hlaupi. Hún hljóp á 25,08 sekúndum og varð í 21. sæti.